spot_img
HomeFréttirSigurður: Tel mig hafa staðið heiðarlega að þessu máli

Sigurður: Tel mig hafa staðið heiðarlega að þessu máli

Félagsskipti Igors Tratnik, eða öllu heldur forsaga þeirra, hafa komist í hámæli og telur Sigurður Hjörleifsson umboðsmaður Tratniks að hann hafi ekki notið sannmælis í þessum efnum. Karfan.is náði tali af Sigurði sem búsettur er í Bandaríkjunum.
,,Mér finnst það afar ósanngjarnt að saka mig um óheiðarleg vinnubrögð. Mörg félög höfðu gert fyrirspurn um hvort Igor væri að losna frá Val, annað hvort að hann yrði rekinn eða að hann segði upp eins og orðrómur virðist hafa verið um heima. Hann gat alltaf sagt upp samningi sínum en þá myndi hann missa vikulaun," sagði Sigurður sem vissulega kynnti fyrir Tindastól að leikmaðurinn væri á lausu. Þá var Tratnik enn samningsbundinn Valsmönnum.
 
,,Tratnik sagðist hafa fyrir því munnlegt loforð frá framkvæmdastjóra Vals að hann gæti valið um að vera áfram eða að hætta og fengi félagaskipti ef hann óskaði þess.
Sem hann gerði og átti að fá þau á fimmtudag í síðustu viku sem frestaðist fram á föstudag þar sem ekki náðist í tiltekna aðila hjá Val," sagði Sigurður sem á ofangreindum forsendum taldi leikmanninn lausan allra mála hjá Val.
 
,,Ég taldi óhætt að treysta þessu loforði og fór þessvegna í viðræður við Tindastól. Tindastólsmenn vissu þetta allt og höfðu staðfestingu á þessu öllu beint frá leikmanninum," sagði Sigurður og er ósáttur við að vera hafður fyrir rangri sök, þ.e. að bjóða liðum einn af sínum skjólstæðingum á meðan hann er samningsbundinn félagi.
 
,,Ótímabær frétt á Feyki.is virðist síðan hafa sett þetta allt upp í loft áður en endanlega var gengið frá málinu. Ég tel mig hafa staðið heiðarlega að þessu máli."
 
Eins og flestir vita þá er Tratnik orðinn leikmaður Tindastóls og þegar búinn að leika einn leik fyrir félagið, gegn Fjölni í síðustu umferð.
Fréttir
- Auglýsing -