Miðherjinn Sigurður Gunnar Þorsteinsson miðar á grísku úrvalsdeildina fyrir næstu leiktíð en hann og félagar í Doxa í grísku A2 deildinni vöktu verðskuldaða athygli á síðustu leiktíð með frammistöðu sinni þar sem Sigurður var eini erlendi leikmaður liðsins.
„Ég get farið aftur til Doxa en ég vil taka stærra skref, reyna að komast að hjá stærra liði,“ sagði Sigurður við Karfan.is í kvöld.
Ísfirðingurinn hefur látið boltann eiga sig síðustu daga en er að byrja dripplið aftur en hann hefur ekki setið auðum höndum upp á síðkastið.
„Ég er í einkaþjálfun fimm sinnum í viku hjá Fannari Karvel í Spörtu rétt eins og tvö síðustu sumur. Núna í vikunni byrja ég á bolta eftir smá frí að loknu tímabilinu,“ sagði Sigurður en íslensk lið hugsa sér eflaust gott til glóðarinnar í Sigurði en hugur hans liggur utan landsteinanna.
„Ég gef ekki íslenskum liðum kost á mér,“ sagði Sigurður sem er með landsliðið í huga og efstu deildina í Grikklandi. Hann og umboðsmaður hans vinna að því að koma Sigurði fyrir hjá liði í grísku úrvalsdeildinni þar sem Hörður Axel Vilhjálmsson lék m.a. með Trikalla síðasta tímabil.