spot_img
HomeFréttirSigurður Ingimundarson: Landsliðið er sterkt um þessar mundir

Sigurður Ingimundarson: Landsliðið er sterkt um þessar mundir

{mosimage}

 

 

(Sigurður Ingimundarson, landsliðsþjálfari) 

 

Sigurður Ingimundarson, landsliðsþjálfari, segir sína menn í landsliðinu hafa beðið lengi eftir Evrópumótinu og er bjartsýnn á gengi íslenska liðsins á EM en fyrsti leikur liðsins er gegn Finnum á miðvikudag kl. 20:30 í Laugardalshöll.

 

„Finnar og Georgíumen eru taldir sigurstranglegastir í riðlinum og umræðan hefur verið á þann veg hvort liðið muni vinna riðilinn. Það gerir Evrópumótið bara enn skemmtilegra fyrir vikið,“ sagði Sigurður í samtali við Karfan.is

 

Sigurður segir finnska liðið vissulega fyrnasterkt með marga þekkta leikmenn innan sinna raða sem allir eru atvinnumenn. „Finnar spila mikið á liðsheildinni og eru með marga frambærilega leikmenn. Sem dæmi er Petri Virtanen stórhættuleg skytta og hefur verið að skora mikið fyrir finnska liðið. Við höfum einnig á góðu liði að skipa og erum með marga leikmenn sem geta tekið af skarið þegar þess þarf,“ sagði Sigurður.

 

Landsliðsþjálfarinn er klár í slaginn og segir íslenska liðið þurfa að halda leiknum hröðum á miðvikudag með sem fæstum mistökum. „Við þurfum að vera sniðugir í því að fá auðveldar körfur og vera ákveðnir í því að sækja að körfu Finna,“ sagði Sigurður og telur að leikurinn frá Norðurlandamótinu sé lítt marktækur um þessar mundir en þá lágu Íslendingar 81-73 gegn Finnum.

 

„Við lentum langt undir gegn Finnum á Norðurlandamótinu og það kostaði okkur mikið að vinna upp muninn. Undirbúningurinn hjá liðinu hefur verið góður og erum vongóðir um að útkoman verði eins og við höfum áætlað,“ sagði Sigurður en það hefur ekki verið neitt leyndarmál að Sigurður og Friðrik aðstoðarlandsliðsþjálfari ætla með íslenska landsliðið í hóp A-þjóða í körfuknattleik. Til þess þarf Ísland að vera á meðal tveggja efstu þjóða í riðlinum.

 

„Íslenska landsliði er sterkt um þessar mundir og full ástæða til þess að vænta góðrar spilamennsku af strákunum,“ sagði Sigurður að lokum.

 

 

 

ÍSLAND-FINNLAND – LAUGARDALSHÖLL

MIÐVIKUDAGINN 6. SEPTEMBER

KL. 20:30

Fréttir
- Auglýsing -