spot_img
HomeFréttirSigurður: Hefur engin áhrif á okkar áform

Sigurður: Hefur engin áhrif á okkar áform

15:22

{mosimage}

Íslandsmeistaralið Keflavíkur hefur orðið fyrir töluverðri blóðtöku undanfarið. Nýverið samdi Magnús Þór Gunnarsson, fyrrum fyrirliði Keflavíkur, við erkifjendurna í Njarðvík og þá hefur leikstjórnandinn Arnar Freyr Jónsson ákveðið að ganga til liðs við Grindvíkinga en Arnar fór á kostum í úrslitakeppninni og saman mynduðu hann og Bobby Walker illskeytt bakvarðapar. Karfan.is leitaði viðbragða við þessum tíðindum hjá Sigurði Ingimundarsyni þjálfara Keflavíkur en hann segir Íslandsmeistarana vera í toppmálum.

 

„Við eigum fullt af góðum leikmönnum og þetta mun ekki hafa nein áhrif á okkar áform,“ sagði Sigurður sem nýverið gerði nýjan samning við Keflvíkinga og mun stjórna þeim í titilvörninni á næstu leiktíð.

 

„Arnar og Magnús eru góðir leikmenn sem eru að fara að reyna sig annars staðar og ég vona að þeim gangi vel en við erum með unga stráka sem þurfa að fá að spreyta sig meira og það verður bara gaman hjá okkur,“ sagði Sigurður. Við brotthvarf Magnúsar og Arnars hefur þó komið viðbót til Keflavíkur.


„Sverrir Þór Sverrisson er kominn til baka til okkar og í okkar röðum eru kraftmiklir karlar. Ég á ekkert endilega von á fleiri viðbótum í hópinn okkar af íslenskum leikmönnum en við erum bara rólegir og ungu strákarnir okkar hafa verið virkilega dulegir að æfa undanfarið,“ sagði Sigurður og það var engan bilbug á honum að finna, ekki frekar en fyrri daginn.  Arnar og Magnús Þór gerðu samtals 16,2 stig í leik fyrir Keflavík í deildarkeppninni á síðustu leiktíð. Arnar Freyr var með 5,7 stig að meðaltali og Magnús 11,5. 

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -