spot_img
HomeFréttirSigurður Elvar: Verður þríframlengt

Sigurður Elvar: Verður þríframlengt

 
Stórleikur fer fram í Toyotahöllinni í Reykjanesbæ í kvöld þegar Keflavík tekur á móti Njarðvík í rómaðri innansveitarkróniku í síðasta leik 8-liða úrslitanna í Subwaybikar karla. Karfan.is tók spjall af því tilefni við Sigurð Elvar Þórólfsson annan af tveimur ritstjórum Íþróttadeildar Morgunblaðsins en hann á von þríframlengdum leik í kvöld þar sem ,,klókir“ leikstjórnendur munu hafa úrslitaáhrif.
Hvernig verður þetta í kvöld? Blóð sviti og tár eða 20 stiga sigur öðru hvoru megin?
Ég er ekki í vafa um að þetta verður hörkuslagur. Keflvíkingar virðast vera að ná betri tökum á sóknarleiknum eftir að hafa skipt um útlending og fengið Draelon Burns. Njarðvíkingar hafa einnig eflst með tilkomu Nick Bradord og í þeirra liði eru einstaklingar sem geta dottið í stuð og skorað af vild, má þar nefna Magnús Gunnarsson og Jóhann Ólafsson. Leikurinn verður þríframlengdur og annað liðið kemst áfram!
 
Siggi Ingimundar vs. Guðjón Skúla í þjálfarastólnum, óumdeilt hver á lengri og glæstari feril í þjálfun en mun það skipta máli í kvöld?
Sigurður er með meiri þjálfarareynslu en Guðjón, en það eru leikmennirnir sem axla ábyrgðina og verða að standa undir þeim væntingum sem til þeirra eru gerðar. Þjálfarar geta komið sínum skilaboðum til leikmanna í hita leiksins en þegar uppi er staðið þá eru það leikmennirnir sem taka ákvarðnirnar sem gera út um leikinn. Er einhver að hlusta á þjálfarann í hita leiksins 🙂 Það held ég ekki..
 
Match-up in í kvöld, hvernig verða þau og hverjir munu draga vagnana?
Ég hlakka til að sjá viðureign Sigurðar Þorsteinssonar og Friðriks Stefánssonar undir körfunni. Vonandi fá þeir að takast á og nota líkamsstyrk sinn til þess án þess að dómararnir skiptir sér of mikið af þeim "slag". Leikstjórnendur beggja liða ráða oft úrslitum í svona leikjum. Sá sem verður "klókur" og yfirvegaður þegar spennan er sem mest mun fagna sigri með sínu liði. Ég vona líka að Bradford verði með muninn fyrir neðan nefið.. samkvæmt venju..
 
Er sigurvegarinn í kvöld að fara síðan alla leið?
Hef ekki hugmynd um það, það eru spákonur sem vinna við að rýna í svoleiðis hluti…þær eru í símaskránni..
 
Ljósmynd/ Sigurður Elvar lék með ÍA og Skallagrím áður fyrr og hér er hann í glímu við einn nafntogaðasta leikmann sem komið hefur til landsins, Franc Booker.
 
Fréttir
- Auglýsing -