Carmen Tyson-Thomas leikmaður Keflavíkur er með tvö brotin rifbein og eitt brákað eftir viðureign Keflavíkur og Vals þar sem hún lenti illa eftir glórulausa varnartilburði Taleya Mayberry leikmanns Vals.
Sigurður Ingimundarson þjálfari Keflavíkur verður án Carmen í kvöld þegar Grindavík og Keflavík mætast í Domino´s deild kvenna. Aðspurður hvort Carmen yrði með í bikarúrslitum 21. febrúar næstkomandi sagðist Sigurður ekki vera bjartsýnn á það.
Félagaskiptaglugginn er nú lokaður svo Keflvíkingar eiga þann eina kostinn að bíða eftir að Carmen jafni sig af meiðslum sínum.
Blóðtakan er drjúg fyrir Keflvíkinga því Carmen er næst framlagshæsti leikmaður Domino´s deildar kvenna með 32,84 framlagsstig að meðaltali í leik.



