spot_img
HomeFréttirSigurður á leið til Grikklands

Sigurður á leið til Grikklands

 

Sigurður Gunnar Þorsteinsson er á leið til Machite Doxa Fefkon í Grikklandi en liðið leikur í næstefstu deild. Liðið er nýtt af nálinni en mörg lið hér heima sýndu Sigurði áhuga en Grikkland kallaði og þá svara menn.

„Já margir hér heima sýndu mér áhuga en ég lét alltaf vita að ég hefði það að markmiði að fara út, eftir að ég komst ekki í 12 manna hópinn fyrir EuroBasket þá fóru hlutirnir á fullt. Þetta datt bara inn hjá mér með Grikkland í síðstu viku, fékk samninginn í hendurnar í gær og þetta kláraðist í dag,“ sagði Sigurður við Karfan.is í kvöld. 

Sigurður heldur til Grikklands eftir helgi en það var umboðsmaðurinn Sigurður Hjörleifsson sem liðsinnti honum með ferlið til Grikklands. „Ég var ráðinn sem miðherji en ég lék stöðu miðherja hjá Solna í Svíþjóð og einnig stöðu kraftframherja, „fjarkinn“ er það sem liggur frekar fyrir mér því flestar fimmur í Evrópu eru 210 sm og hærri,“ sagði Sigurður sem kveðst hafa verið að bæta skotið sitt af millifæri og þá lágu þeir nokkrir langdrægir í sænsku deildinni á síðasta tímabili. 

Sigurður er í hörku formi eftir sumarið og viðurkennir að það hafi verið þungt að komast ekki í 12 manna hóp íslenska landsliðsins fyrir Berlínarferðina. „Ég hugsaði ekki mikið á æfingunni eftir að ég var köttaður, man reyndar voðalega lítið hvað ég gerði þann daginn. Þarna vill maður vera og þetta var markmiðið allt sumarið svo það var vont að fá „nei“ við þessar aðstæður en það þarf að skera einhverja úr hópnum.“

Erfitt var að vinna úr þessum vonbrigðum en Sigurður var farinn að sjá í hvað stefndi. „Eftir Eistland fann ég að ég væri ekki inni í þessu enda spilaði ég ekkert í þriðja leiknum. Þetta var vont og maður meltir þetta ekkert auðveldlega enda vont þegar draumur manns er kraminn,“ sagði Sigurður en kvað það auðvitað bót í máli að landa atvinnumannasamning í næstefstudeild í Grikklandi. 

„Já það er ljóst að eitthvað hefur komið út úr sumrinu,“ sagði Sigurður sem vegna samningsins getur ekki þegið það að vera staddur í Berlín á EuroBasket enda fer hann til Grikklands á mánudag. „Ég sagði reyndar nei við þeim strax í upphafi, ég vildi ekki að KKÍ væri að borga fyrir mig svo ég gaf þetta frá mér srax enda mikill áhugi eftir að ég var tekinn úr hópnum. Í raun er ég feginn að fara ekki til Berlínar enda hefði það verið erfitt að sitja uppi í stúku og horfa á leikina. Ég mun auðvitað fylgjast grannt með strákunum og styðja þá fram í rauðann dauðann.“ 

Fréttir
- Auglýsing -