spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaSigurðarsynir sáu um Hauka

Sigurðarsynir sáu um Hauka

SKR-ingar hafa undanfarin ár verið á rúntinum í deildarkeppninni framan af vetri, slakir að njóta og lifa. Í fyrstu umferð gátu þeir komið við í ísbúð og allt enda Grindjánar ekki fullmannaðir. Andstæðingar kvöldsins, Haukar, eru hins vegar með geggjað lið sem hafði það líka frekar náðugt í fyrstu umferð. Vonandi leggja bæði lið mikið í rimmu kvöldsins, ef svo verður má búast við góðum og spennandi leik.

Spádómskúlan: Kúlan er í menningarlegum gír nú í upphafi tímabils og flaug í hug staka í tilefni leiksins:

Liðið vammlaust vel ég þekki

veit ég hvernig í öllu liggur

Glímu-Tryggur tapar ekki

traustur KR-sigur tryggur.

Byrjunarlið:

KR: Craion, Helgi, Matti, Jakob, Jón

Haukar: Robinson, Hjálmar, Kári, Haukur, Emil 

Gangur leiksins

Eftir býsna stirðbusalegar upphafsmínútur komu heimamenn sér úr hlutlausa gírnum og komust í 7-2. Haukamenn fylgdu svo í kjölfarið með Hauk og Kára fremsta í flokki og snéru taflinu við – þristur frá Hauki kom gestunum í 9-17 þegar 4 mínútur voru eftir af leiklutanum. Meira þarf til að skelfa Íslandsmeistarana og með Matta sjóðandi heitan var svo gott sem jafnt, 20-23, að fyrsta leikhluta loknum.

KR-ingar sköpuðu sér allnokkuð af góðum skotfærum í fyrsta leikhluta en lítið vildi ofan í. Það breyttist í öðrum leikhluta og heimamenn byrjuðu hann 13-0! Haukar gátu ekki skorað úr sniðskoti hvað þá meira en KR-vörnin var einnig nokkuð ákveðnari í leikhlutanum. Haukur Óskarsson kom sínum mönnum til bjargar með 8 stigum á skömmum tíma og minnkaði muninn í 33-31 um miðjan leikhlutann. Þá var eins og kvótinn væri búinn og eins og hendi væri veifað tóku KR-ingar aftur yfir. Matti spilaði eins og engill og átti mestan heiðurinn að 47-39 forystu heimamanna í hálfleik.

Heimamenn héldu uppteknum hætti í síðari hálfleik. Munurinn hékk í kringum 10 stigin allan leikhlutann og Haukaliðið leit svolítið út fyrir að vera bíða eftir augnablikinu þegar það verður orðið tölfræðilega lógískt að gefast upp. Í þessum leikhluta var Craion áberandi og komst í hvert sniðskotið á fætur öðru og þeir bræður Sigurðarsynir voru áfram áberandi sóknarlega. Staðan var 77-64 eftir 30 mínútna leik.

KR-ingar mættu grimmir í lokaleikhlutann og ætluðu greinilega ekki að færa gestunum neina von á silfurfati. Eftir um 2 mínútna leik var staðan 84-66 og þarna var gott lógískt uppgjafaraugnablik runnið upp. Satt best að segja var restin af leiknum ekkert sérstök skemmtun en lögum samkvæmt var spilað þar til lokaleikhlutanum lauk og höfðu þá KR-ingar skorað 102 stig gegn 84 stigum gestanna.

Menn leiksins

Sigurðarsynir eru menn leiksins. Þeir skoruðu 45 stig, áttu 7 stoðsendingar og tóku 4 fráköst. Fyrir áhugamenn um varnarleik lagði Jón Arnór metnað sinn í vörnina gegn Kára og ekki var annað að sjá en það hafi skilað árangri.

Kjarninn

KR-liðið er vel mannað eins og alltaf. Bjössi og Kristó voru ekki með og Brilli spilaði mjög lítið svo það er nóg til. Liðið hefur undanfarin ár verið frekar ósannfærandi framan af vetri en það er annað upp á teningnum núna. Er það kannski eitthvað til að hafa áhyggjur af? Undirritaður telur svo ekki vera, liðið á bara eftir að verða ennþá betra og sá sjöundi verður kannski sá öruggasti af þeim öllum…

Haukar voru vissulega að spila gegn KR á útivelli en þó er óhætt að fullyrða að liðið spilaði ekki vel í þessum leik. Leikmenn liðsins litu rosalega vel út gegn Þór Ak. en í þessum leik var Haukur sá eini sem eitthvað gat. Flenard var beinlínis lélegur í leiknum og Robinson er fyrirmunað að hitta úr sniðskoti. En þetta er bara einn leikur og tímabilið er bara rétt að byrja.

Tölfræði leiks

Umfjöllun & Viðtöl / Kári Viðarsson

Fréttir
- Auglýsing -