Síðustu fjögur tímabil í úrvalsdeild karla hefur það lið sem vinnur fyrsta leik í úrslitaseríunni orðið Íslandsmeistari. Árið 2010 var annað uppi á teningnum þegar Snæfell varð meistari en þá vann Keflavík fyrsta leik en Snæfell hafði betur í oddaleik og fagnaði sínum fyrsta og eina Íslandsmeistaratitli til þessa. Talandi um fyrsta titil þá eru Tindastólsmenn á höttunum eftir slíkum en síðustu tímabil gefa þeim ekki byr undir báða vængi hvað ofangreinda staðreynd varðar.
Nýliðar Tindastóls léku án Myron Dempsey í gærkvöldi og máttu fella sig við 20 stiga ósigur gegn KR sem leiðir því 1-0. Árið 2010 komu upp athyglisverðar aðstæður þegar Sean Burton meiddist í liði Snæfells, ekki ósvipað og Dempsey er að lenda í þetta sinnið með Tindastól. Í leik tvö í viðureign Snæfells og Keflavíkur í Stykkishólmi varð uppi mikil dramatík þegar Jeb Ivey fyrrum leikmaður Njarðvíkur og Fjölnis og þáverandi atvinnumaður í Finnlandi hafði lokið keppni hjá sínu félagsliði og var ráðinn í raðir Hólmara. Burton á meiðslalistann og Ivey inn í hans stað. Í olsen olsen heitir þetta að vera með „áttu.“ Nú eru leikar þannig að það er búið að taka allar áttur úr spilastokknum. Glugginn er lokaður og þeir sem eru félagsbundnir Tindastól í dag eru eingöngu löglegir í hópinn. Ivey-valkosturinn er ekki í boði. Með Dempsey meiddan í fyrsta leik þurfa Stólarnir því að krossa fingur og vona að kallinn nái sér sem fyrst sem og Flake en brot frá fyrr á tímabilinu virðist hafa tekið sig upp hjá Flake að sögn Kára aðstoðarþjálfara TIndastóls.
Úrslit leikja nr. 1 frá 2010:
Úrslit 2015 – leikur 1
KR 94-74 Tindastóll – 20 stiga sigur
Úrslit 2014 – leikur 1
KR 93-84 Grindavík – 9 stiga munur
(KR vann fyrsta leik og varð meistari)
Úrslit 2013 – leikur 1
Grindavík 108-84 Stjarnan – 24 stiga munur
(Grindavík vann fyrsta leik og varð meistari)
Úrslit 2012 – leikur 1
Grindavík 93-89 Þór Þorlákshöfn – 4 stiga munur
(Grindavík vann fyrsta leik og varð meistari)
Úrslit 2011 – leikur 1
KR 108-78 Stjarnan – 30 stiga munur
(KR vann fyrsta leik og varð meistari)
Úrslit 2010 – leikur 1
Keflavík 97-78 Snæfell – 19 stiga munur
(Keflavík vann fyrsta leik en Snæfell varð meistari)
Mynd/ Bára Dröfn



