spot_img
HomeFréttirSigur í enn einum spennuleiknum

Sigur í enn einum spennuleiknum

,,Þetta var aldrei í hættu! Er þetta ekki vanalega svona hérna í Síðuskóla?” Sagði Sveinn Blöndal leikmaður Þórs glettin við fréttaritara í leikslok. Strákarnir í Þór tryggðu sér sigur í enn einum spennuleiknum í Síðuskóla þegar þeir lögðu Hamar 99-98.
 
 
Heimamenn byrjuðu leikinn þó af miklum krafti og ætluðu greinilega að keyra á gestina og skoruðu fyrstu sjö stig leiksins. Gestirnir úr Hveragerði jöfnuðu sig þó hægt og bítandi. Smá saman komst ró yfir leik gestanna og náðu um miðbik fyrsta leikhluta yfirhöndinni. Kraftur heimamanna aftur á móti dvínaði. Sóknarleikurinn gekk ekki áfallalaust fyrir sig og varnarleikurinn ekki heldur nógu öflugur sem varð til þess að gestirnir fengu stundum auðveld stig.
 
Gestirnir voru ávallt á undan heimamönnum í fyrri hálfleik. Mikil barátta og ekki síst góð hittni gestanna einkenndi leik þeirra í fyrri hálfleik. ,,Þegar lið detta á svona leik! Mér fannst flest skotin vera eitt pick&roll á toppnum og skot með manni í andlitið og ofan í. Ef þeir ætla að setja þessi skot ofan í, þá bara verði þeim af góðu” tjáði Bjarki Oddsson þjálfari Þórs við heimasiðuna. Jafnframt benti Bragi Bjarnason leikmaður gestanna á að sjálfstraustið hafi batnað til muna ,, Sérstaklega eftir áramót hefur sjálfstraustið verið í lagi. Við erum farnir að skjóta af öryggi og þá hittum við í rauninni.” Það var einmitt það sem Hamarsmenn gerðu í fyrri hálfleik, skutu af öryggi. Gestirnir nýttu skot sín afar vel, þá sérstaklega þriggja stiga skot sin eða 50% nýting (6/12). Með þá Danero Thomas, Braga og Snorra Þorvaldsson í broddi fylkingar leiddu Hamars menn í hálfleik 49 – 51. Aftur á móti fannst mörgum smá andleysi vara hjá heimamönnum en þeir mega þakka vaskri framgöngu þeirra Jarrell Crayton og Björn Benediktssonar að forysta gestanna var einungis tvö stig.
 
Í síðari hálfleik héldu gestirnir áfram að skjóta af öryggi og hitta vel. Sérstaklega var Halldór Gunnar Jónsson (16 stig) í fínu stuði fyrir gestina og setti nokkur skot utan af þriggja stiga línunni. Það var ekki síst vegna framgöngu Halldórs að gestirnir byggðu upp sjö stiga forskot, 63 – 70. Gestirnir virtust þvi vera í fínum málum. Smá saman duttu gestirnir úr karakter, hættu að brjóta sér leið að körfunni og voru stundum of staðnir, eins og Bragi Bjarnason benti einmitt á. ,,Í seinni hálfleik fórum við kannski að flýta okkur of mikið og þá fórum við tapa boltanum illa. Þórsararnir eru fljótir að refsa. Þeir eru mjög fljótir fram þegar þeir vinna boltann upp við þriggja stiga línuna”. Þórsarar nýttu sér þetta mjög í vil og náðu að snúa leiknum sér í vil og leiddu leikinn 76 – 74 fyrir fjórða og síðasta fjórðunginn.
 
Þórsarar með þá Ólaf Aron, Jarrell og Svein Blöndal í broddi fylkingar virtust ætla að taka leikinn í sínar hendur. Sveinn og Jarrell voru óstöðvandi inn í teig og voru Þórsarar duglegir að nýta yfirburði þeirra. Hraðinn á Ólafi Aroni hjálpaði einnig, enda afar erfitt að stöðva hann á ferðinni. Maður að nafni Danero Thomas varð þó saga síðasta fjórðungs. Hamarsmenn gerðu allt sem þeir gátu til að koma knettinum í hendur Danero og nærri því upp á sitt einsdæmi hélt hann gestunum inni í leiknum. ,,Leikurinn þróaðist bara út í það. Hann gat farið hvenær sem hann vildi, þeir gatu í raun ekki stöðvað hann” sagði Bragi Bjarnason. Það skipti í raun ekki hvar Danero skaut, hann nýtti skot sín.
 
Góð ráð voru því dýr fyrir Þórsara ef ekki illa skyldi fara. Bjarki Oddsson þjálfari Þórs ákvað því að breyta um taktík. “Við fórum bara að skipta á öllum boltaskrínum á hann í lokin. Enda bara skaut hann, bara eftir eitt drippl og ofan í. Þess vegna þurftum við að vera komnir með mann strax á hann,” sagði þjálfarinn. Þegar að heimamenn fóru að lesa örlítið betur á Danero, hikstaði sóknarleikur gestanna sem treystu of mikið á einstaklingsframtaks Danero, ,, siðan gerðist það stundum að þegar einblínt er of á einn mann, þá verða hinir staðnir og við lentum í þvi í smá tíma og þeir ná að lesa á hann. Þá fengum við nokkrar körfur í bakið. Við hinir vorum ekki að gefa okkur í opnum skrinum nægilega vel og klára sniðskotin okkar þegar þeir fóru tveir/þrir á hann”. rifjaði Bragi Bjarnason leikmaður gestanna upp í leikslok. Þórsarar náðu að halda yfirhöndinni á síðustu mínútum leiksins einnig vegna baráttu Sindra Davíðssonar sem skilaði ekki einungis mikilvægum stigum heldur spilaði hann fanta vörn.
 
Þrátt fyrir að heimamenn væru á skrefinu á undan voru gestirnir þó aldrei langt í burtu. Í raun varð spennan óbærileg á síðustu mínútum leiksins, en bæði lið voru dugleg að setja niður mikilvæg skot. Úrslit leiksins réðust ekki fyrr en á vítalínunni, en Bragi Bjarnason fékk gullið tækifæri til að knýja fram framlengingu. Bragi sem er yfirleitt fín vitaskytta brenndi af fyrra skoti sínu en setti hið siðara niður, ,,bara að setja þetta ofan í [það sem fór í gegnum huga hans á vítalínunni]. En svona er bara skotið. Það bara datt ekki þarna en síðan setti maður seinna niður. Þetta hefði geta dottið og ég set venjulega vítin mín niður og því er þetta svekkjandi. Maður svekkir sig á þessu á leiðinni heim og svo er æfing um helgina og leikur á föstudaginn”. Sagði Bragi í leikslok, svekktur en gat þó borið höfuðið hátt eftir flotta frammistöðu. Þórsarar gátu því fagnað þriðja sigurleiknum í röð og sitja þvi enn í 2. sæti deildarinnar en Hamarsmenn sitja enn í 7. sæti deildarinnar.
 
Gestirnir mega eiga það að þeir spiluðu flottan körfubolta í kvöld. Sóknarleikurinn var afar góður, þó oft og tíðum mæddi full mikið á Danero Thomas, sem skilaði þó sínu með 39 stig og 16 fráköst. Aðrir leikmenn reyndu þó að stíga upp. Halldór Gunnar Jónsson með 16 stig, Bragi Bjarnason 15 og Snorri Þorvaldsson 11. Það sem gladdi augað í leik gestanna var þó þriggja stiga nýting þeirra en þeir settu 46% skota sinn niður (11 af 24). Það er nokkuð ljóst að ef Hamars menn halda áfarm að spila eins og þeir gerðu í kvöld, munu þeir eiga fína möguleika á að komast í úrslitakeppnina.
 
Heimamenn hafa oft spilað betur, þá sérstaklega varnarlega. Það verður þó að hafa í huga að gestirnir hittu afar vel í kvöld. Jarrell var sem fyrr öflugur með 24 stig og 20 fráköst. Ólafur Aron var einnig á sinum stað með 24 stig. Sveinn Blöndal átti góða innkomu í síðari hálfleik, setti alls 13 stig og var öflugur inni í teig. Sindi Daviðsson var einnig fínn. Var afar rólegur í fyrri hálfleik, en náði með mikilli baráttu að kveikja aðeins í mönnum og endaði leikinn með 13 stig.
 
 
Umfjöllun – Sölmundur Karl Pálsson
 
 
  
Fréttir
- Auglýsing -