spot_img
HomeFréttirSigur hjá Zaragoza - Manresa lá úti

Sigur hjá Zaragoza – Manresa lá úti

Íslenskt körfuknattleiksfólk hafði nokkuð fyrir stafni á meginlandi Evrópu þessa helgina. Jón Arnór Stefánsson og Zaragoza nældu sér í sigur, Helena og félagar eru komin í úrslit og þá verða þrír íslenskir landsliðsmenn í eldlínunni í kvöld í undanúrslitum sænsku úrvalsdeildarinnar.
 
CAI Zaragoza 86-74 Lagun Aro
Jón Arnór lék í rúmar 14 mínútur með Zaragoza og tókst ekki að skora í sigurleiknum en var með 3 fráköst og 2 stoðsendingar. Stigahæstur í sigurliði Zaragoza var Damjan Rudez með 23 stig og 3 fráköst. Eftir helgina er Zaragoza enn í 7. sæti ACB deildarinnar með 16 sigra og 12 tapleiki.
 
Fuenlabrada 73-51 Manresa
Haukur Helgi Pálsson lék í tæpar 8 mínútur í leiknum og tókst ekki að skora, hann tók reyndar ekki skot þann tíma sem hann fékk að spila. Manresa er því sem fyrr á botni deildarinnar með 5 sigra og 23 tapleiki.
 
FC Bayern Munchen 92-62 Mitteldeutscher BC
Hörður Axel og félagar fengu skell gegn Bæjurum. Hörður gerði 3 stig í leiknum, tók 2 fráköst og gaf 4 stoðsendingar en stigahæstur í liði MBC var Malte Schwarz með 14 stig, enginn byrjunarliðsmaður MBC náði 10 stigum í leiknum! Eftir leiki helgarinnar er MBC í 14. sæti deildarinnar og lengdist nú heldur í sætið í úrslitakeppninni og baráttan við að halda sæti sínu í deild orðin harðari.
 
Helena Sverrisdóttir og Good Angels eru komin í úrslit í Slóvakíu en Good Angels fóru 2-0 í gegnum Ostrava í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og svo 3-0 í gegnum SKBD Rucon. Liðið mætir Ruzomberok í úrslitum sem líkt og Good Angels fóru taplausar inn í úrslit.
 
Þriðja viðureign Sundsvall Dragons og Norrköping Dolphins fer fram í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Staðan er jöfn í einvíginu, 1-1 þar sem Norrköping vann síðustu viðureign liðanna á heimavelli. Leikur kvöldsins fer fram á heimavelli Drekanna og hefst kl. 19:04 að staðartíma eða kl. 17:04 að íslenskum tíma.
  
Fréttir
- Auglýsing -