Íslendingaliðin Sundsvall Dragons og Solna Vikings léku í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld þar sem Jakob og félagar í Sundsvall höfðu góðan 74-90 útisigur á 08 Stockholm en Helgi Már Magnússon og liðsfélagar hans í Solna Vikings máttu þola 77-78 tap á heimavelli gegn Örebro.
Jakob Örn var stigahæsti maður vallarins í útisigri Sundsvall með 23 stig, 6 stoðsendingar og 4 fráköst en Helgi Már gerði 11 stig og tók 5 fráköst í tapi Solna. Örebro unnu Solna með minnsta mun, einu stigi, en Örebro settu niður sniðskot þegar 5 sekúndur voru til leiksloka. Solna fékk færi á því að stela sigrinum þar sem bæði skot og tilraun til að blaka niður sóknarfrákasti fóru forgörðum og því urðu Solna-menn að játa sig sigraða.
Sigurinn í kvöld var þriðji deildarsigur Sundsvall í röð og jafnframt töpuðu Helgi og Solna sínum fjórða deildarleik í röð.



