Tímabilið hófst í gærkvöldi hjá Hauki Helga Pálssyni og bandaríska skólaliðinu Maryland Terrapins. Liðið hafði fyrir leiktíðina aðeins leikið einn æfingaleik sem vannst örugglega og hið sama var uppi á teningnum í gærkvöldi þegar 2K Classic mótið hófst með viðureign Maryland og Seattle University. Sigur Maryland var aldrei í hættu þar sem lokatölur voru 105-76 Maryland í vil.
Haukur lék í 6 mínútur í leiknum og skoraði eitt stig af vítalínunni. Haukur var einnig með 3 fráköst en hann brenndi af báðum teigskotunum sínum og einu þriggja stiga skoti. Jordan Williams var atkvæðamestur í liði Maryland með 32 stig.
Næsti leikur Maryland í 2K Classic mótinu er á miðvikudag gegn Charleston skólanum.



