Landsliðskonurnar Helena Sverrisdóttir og María Ben Erlingsdóttir voru í eldlínunni um helgina með bandarísku háskólaliðunum sínum. Helena og TCU unnu öruggan sigur á Air Force skólanum en María og félagar í UTPA máttu þola tap gegn Chicago State.
TCU átti ekki í nokkrum vandræðum með Air Force skólann um helgina. Air Force mætti á Daniel Maeyer heimavöll TCU og lá þar 77-47. Þær Helena Sverrisdóttir og Delisa Gross voru stigahæstar í liði TCU með 17 stig. Helena var auk þess með 6 stolna bolta og 2 fráköst á þeim 23 mínútum sem hún lék í leiknum.
María Ben Erlingsdóttir skoraði 6 stig þegar UTPA skólinn lá gegn Chicago State 78-63. María var í byrjunarliðinu og lék í 34 mínútur í leiknum, tók 2 fráköst og var með 2 stoðsendingar.
Næsti leikur UTPA er á miðvikudag gegn Houston Baptist skólanum en næsti leikur TCU er gegn Utah á útivelli og fer hann einnig fram á miðvikudag.



