Háskólanemar okkar frá Íslandi höfðu nóg fyrir stafni um helgina. Kristófer Acox var í tvennuham í öruggum sigri Furman á meðan Jón Axel upplifði smá kuldakast með Davidson. Af nægu er að taka úr háskólaboltanum en þar voru t.d. Sara Rún og Margrét Rósa í miklum gír með Canisius.
Furman 79-46 Navy
Kristófer Acox splæsti í tvennu um helgina með 10 stig og 10 fráköst í stórum og öruggum sigri gegn Navy. Kristófer var einnig með 3 stoðsendingar og 2 stolna bolta og hér að neðan má sjá kallinn nappa einum bolta og skila honum af sér með kraftatroðslu
.@krisacox with the steal and the finish! _x1f4aa_ pic.twitter.com/W6uHMnJgLS
— Furman Basketball (@FurmanHoops) December 3, 2016
Charleston 76-61 Davidson
Skellur hjá Davidson og okkar maður Jón Axel Guðmundsson fann ekki fjölina að þessu sinni. Hann skoraði ekki á þeim 29 mínútum sem hann lék í leiknum en var með 4 fráköst og 3 stoðsendingar. Næsti leikur er ekkert smá verkefni og verður í beinni á ESPN2 en það er viðureign Davidson gegn North Carolina í Chapel Hill þann 7. desember næstkomandi.

Drexel 78-72 High Point
Kári Jónsson var stigahæstur í liði Drexel með 25 stig. Kári var einnig með 4 fráköst, 1 stoðsendingu og 1 stolinn bolta. Sigurinn hjá Drexel var annar sigur liðsins í röð og þetta var það mesta sem Kári hefur skorað í einum leik fyrir skólann!
Quinnipiac 77-63 Marist
Kristinn Pálsson og Marist urðu líka að sætta sig við ósigur um helgina þegar liðið lá gegn Quinnipiac. Kristinn kom af bekknum og gerði 3 stig á 20 mínútum en hann var einnig með 2 stoðsendingar, eitt frákast og eitt varið skot.
Marist 69-73 Saint Peter´s
Kvennalið Maris tapaði einnig um helgina, Lovísa Björt Henningsdóttir var í byrjunarliði Marist sem fyrr og skoraði 10 stig á 26 mínútum. Hún var einnig með 3 fráköst og 3 varin skot.
St. Francis 56-76 Army
Gunnar Ólafsson var í byrjunarliði St. Francis en skoraði ekki á þeim 11 mínútum sem hann spilaði í leiknum. Gunnar var með 3 fráköst og einn stolinn bolta.
Belmont Abbey 79-85 North Georgia
Gunnar Ingi Harðarson kom inn af bekknum í tapi Belmont Abbey en hann gerði 14 stig á 19 mínútum og tók 3 fráköst. Þetta var þriðja tap Belmont Abbey í röð.
Canisius 74-54 Monmouth
Sara og Margrét Rósa voru stigahæstar í sigri Canisius. Sara Rún með 17 stig og 7 fráköst á 31 mínútu og Margrét Rósa bætti við 16 stigum, 6 stoðsendingum og 4 fráköstum á 25 mínútum. Þar með batt Canisius enda á fjögurra leikja taphrinu sína.
Saint Leo 99-93 Barry
Elvar Már Friðriksson gerði 19 stig í leiknum og bætti við 9 stoðsendingum á 42 mínútum en framlengja varð þessa hörku viðureign. Þá var Elvar einnig með tvo stolna bolta í leiknum og þar með lauk sex leikja sigurgöngu Barry.
Embry-Riddle 86-77 Francis Marion
Tómas Þórður Hilmarsson fékk 6 mínútur með Francis Marion um helgina í tapi gegn Embry-Riddle. Tómasi tókst ekki að skora í leiknum að þessu sinni.



