spot_img
HomeFréttirSigur hjá Blikum fyrir austan dugði ekki til

Sigur hjá Blikum fyrir austan dugði ekki til

Breiðablik endaði keppnistímabilið í 1. deild karla á Egilsstaðum á föstudaginn og öttu þar kappi við heimamenn í Hetti. Fyrir leikinn voru Hattarmenn í 2. sæti deildarinnar og búnir að sigra 5 leiki í röð í deildinni. Blikastrákarnir hafa lent í vandræðum í seinni umferðinni en meiðsli og veikindi lykilmanna hafa sett strik í þann reikning en strákarnir voru virkilega góðir og samheldnir í þessum leik og áttu sigurinn svo sannarlega skilið með frábærum varnarleik í síðari hálfleik og öguðum sóknarleik. Lokatölur voru 73-68 fyrir Breiðablik og enda þeir því jafnir ÍA í 5.-6. sæti deildarinnar með 18 stig en einungis 4 skoruðum stigum munar á að Breiðablik eigi innbyrðisviðureignina á þá og sæti í úrslitakeppni!
??Fyrir leikinn fólust möguleikar Blika í því að sigra Hött og treysta á að Ármann myndi vinna ÍA í síðustu umferðinni. Leikurinn átti að hefjast 45 mínútum fyrr en aðrir leikir en vegna erfiðleika í klukkumálum og að koma tölfræðinni á netið tafðist hann um 20 mínútur. Ekkert stat var frá leiknum sem olli miklum vonbrigðum hjá öllum Kópavogsbúum sem í dag telja 31.193 manns.
 
?Blikarnir byrjuðu leikinn í 2-3 svæðisvörn og gengu heimamenn á lagið í byrjun og skoruðu þeir 4 3ja stiga körfur í 1. leikhluta. Tölur eins og 7-2 , 13-5 og 18-12 voru uppi á teningnum í fyrsta leikhluta en staðan eftir fyrsta leikhluta var 20-16 fyrir heimamenn.
 
?Annar leikhluti hófst með miklum látum hjá Blikum sem skoruðu 10 stig gegn 2 og komust yfir 26-22. Höttur tók leikhlé og sneri taflinu aftur sér í vil og með góðri syrpu og tveimur þriggja stiga körfum komust þeir í þægilega níu stiga forystu í leikhléi 39-30.
 
?Blikar gengu til búningsklefa staðráðnir í því að selja sig dýrt í seinni hálfleik, Sævaldur þjálfari gerði smá áherslubreytingar á 2-3 svæðisvörninni en Höttur hafði gengið full auðveldlega að taka sóknarfráköst eftir fjölmörg 3ja stiga skot og einnig voru staðsetningar aðeins lagfærðar fyrir átök síðari hálfleiks. Leikurinn var í járnum í upphafi seinni hálfleiks en í stöðunni 45-35 fyrir heimamenn gerðu  Blikar frábært áhlaup og skoruðu 16-7 og voru komnir í bullandi séns og staðan 52-51 fyrir upphaf lokaleikhlutans.
 
??Fjórði og síðasti leikhluti leiksins hófst eins og þeir fyrri. Höttur skoraði fyrstu stig hans og komu stöðunni í 58-53 og loks kom 3ja stiga karfa hjá Michael Sloan sem kom heimamönnum í stöðuna 61-55. Í þeirri stöðu tóku Blikar leikhlé og komu þeir að því loknu með frábæra endurkomu með 8 næstu stigum og komust í fyrsta skipti yfir í leiknum 63-61. Ágúst Orrason smellti á þessum kafla í tvær rándýrar 3ja stiga körfur og rétt rúmlega 3 mínútur eftir af leiknum. Höttur tekur leikhlé og skorar annar útlendingurinn hjá þeim og staðan er 63-63 og allt á suðupunkti í leiknum. En þá tóku Ágúst Orrason og Sigtryggur Arnar Björnsson til sinna ráða og skoruðu öll stig okkar það sem eftir var leiks. Ágúst með annan þrist og Arnar með gegnumbroti og körfu og fékk villu að auki sem kom okkur 69-63 yfir í leiknum. Höttur skoraði síðan næstu körfu og brutu á okkar mönnum en Sigtryggur Arnar skoraði úr 4 af 6 vítum sínum sem hann fékk á lokamínútunni og innsiglaði sætan og frábæran sigur strákanna í leiknum. Lokatölur 68-71 fyrir Breiðablik.??
 
Aðeins 9 leikmenn Blika fóru með í þessa ferð sökum mikilla veikinda og meiðsla. Stigahæstur í Blikaliðinu var Ágúst Orrason með 20 stig, þar af 9 stig í fjórða leikhluta þegar mest á reyndi, Atli Örn Guðmundsson og Þorsteinn Gunnlaugsson voru með 16 stig hvor og báðir að vanda með fjöldan allan af fráköstum. Sigtryggur Arnar Björnsson var með 9 stig, þar af var hann með 7 af þessum 9 stigum á síðustu 90 sekúndum leiksins, Rúnar Pálmarson var með 6 stig, Ægir Hreinn Bjarnason, Einar Þórmundsson og Hákon Bjarnason voru allir með 2 stig og Hjalti Már Ólafsson og Steinar Arason spiluðu einnig en náðu ekki að skora.

Umfjöllun/ JG
Mynd/ Úr safni – Frá leik Blika og ÍG fyrr á tímabilinu 
Fréttir
- Auglýsing -