spot_img
HomeFréttirSigur á þrettándanum(Umfjöllun)

Sigur á þrettándanum(Umfjöllun)

02:33

{mosimage}

ængbrotið lið Skallagríms hreinlega valtaði yfir arfaslaka Garðbæinga í Borgarnesi í kvöld og endaði leikurinn með öruggum sigri Skallagríms, 89-64. Borgnesingar voru án þeirra Axels Kárasonar og Milojica Zekovic en það kom ekki að sök, aðrir leikmenn stigu upp og sáu til þess að þeirra var ekki saknað.


Leikurinn fór heldur jafnt af stað, þeir Pétur Már og Darrel Flake voru mest áberandi í liði Skallagríms framan af og svo virtist sem að Bandaríkjamaður þeirra Stjörnumanna, Calvin Roland ætlaði að fara mikinn í leiknum, en hann hóf leikinn á því að verja skot Péturs og troða svo með tilþrifum. Lítt komst kappinn þó áleiðis eftir það. Pálmi nokkur Sævarsson hafði hann í gjörgæslu allt frá 1. mínútu og sá til þess að hann kæmist ekki upp með neinar hundakúnstir. 1. leikhluti einkenndist af hreint út sagt frábærum varnarleik heimamanna og var staðan eftir leikhlutann 22-8 fyrir Skallagrím, já ótrúlegar tölur. Þess ber að geta að Pálmi Sævarsson tók heil 5 fráköst í 1. leikhluta.

Mansour Mbye leikmaður Stjörnunnar skoraði fyrstu stigin í 2. leikhluta og gæddi sú karfa von í hjörtum gestanna, en sá litli vonarneisti var snögglega kæfður með 9 stigum í röð frá Skallagrími í boði þeirra Alan Fall og Péturs Más. Upphófst þá heldur tíðindalítill kafli í leiknum, liðin skiptust á því að missa boltann klaufalega og tuða í dómurunum og hverjum öðrum. Hafþór Ingi Gunnarsson sparkaði þá duglega í rassinn á heimamönnum með laglegri þriggja stiga körfu og skyndilega var leikurinn orðinn skemmtilegur á ný.  Oft er talað um að góðir íþróttamenn "tvöfaldi" sig þegar á reynir, en réttast væri að segja að Pálmi Sævarsson hafi þrefaldað sig í kvöld. Maðurinn var út um allan völl, spilaði frábæra vörn og barðist eins og enginn væri morgundagurinn. Ungir og stefnulausir menn geta tekið svona beljaka sér til fyrirmyndar, ekki flinkasti maðurinn á vellinum, en áreiðanlega sá duglegasti.  Darrel Flake endaði fyrri hálfleikinn á flautukörfu eftir frábæran undirbúning frá Allan Fall. Staðan í hálfleik var 47-24 og greinilegt var að mótlæti meiðslanna hafði virkjað menn til góðs.

{mosimage}

Stjörnumenn voru ögn beittari 3. leikhluta og hófu hann af krafti, Dimitar Karadzovski og Mansour Mbye gerðu hvað þeir gátu til þess að koma sínum mönnum inn í leikinn, en þeir fengu litla hjálp frá meðspilurum sínum. Þriggjastigsaguðirnir bannfærðu Kjartan Atli Kjartansson í kvöld en eins og menn muna þá var drengurinn okkur erfiður síðast en þá hitti hann vel, sú var ekki raunin í kvöld. Pétur Már Sigurðsson datt svo í gírinn og honum héldu engin bönd. Hann hreinlega snýtti sér á Mansour Mbye og "fór með hann í skólann" eins og menn segja á körfuboltamáli, "smurði nestið og reimdi á hann skóna". Mbye réði ekkert við Pétur Má sem hreinlega fór hamförum í sóknarleiknum. Darrel Flake átti hvert einasta frákast er féll af körfuhringnum og heimamenn fóru með þægilega forystu inn í síðasta fjórðunginn, 67-47. Stjörnumönnum til hróss þá skorðuðu þeir jafnmörg stig í 3. leikhluta eins og í öllum fyrri hálfleiknum.  

{mosimage}

Fannar Helgason frá Ósi skoraði fyrstu stigin í 4. leikhluta, en pilturinn átti ágæta spretti í leiknum. Pétur Már dró þó enn og aftur athyglina til sín þegar hann skoraði 3 stig, fékk villuna og setti niður vítið, fjögurra stiga sókn. Pétri héldu eins og áður sagði, engin bönd og engir leikmenn. Pétur Már, Flake og Fall stjórnuðu leik Skallagríms í sókninni og Hafþór Ingi og Pálmi stóðu vaktina í vörninni. Allan Fall átti þó tilþrif leiksins þegar hann keyrði að körfunni, undir stykri stjórn Kenneth Webb þjálfara Skallagríms, og skoraði úr vonlausu færi. Þetta hefur sést nokkrum sinnum í vetur, Webb fer niður á hnén, leikmenn Skallagríms fara út í horn og Allan Fall fer einn á einn við þann er dekkar sig. Frábær körfubolti. Leiknum lauk með körfu frá Kjartani Atla, langþráðum þristi, 89-64.

Hreint út sagt frábær frammistaða hjá leikmönnum Skallagríms í kvöld, sem spiluðu einn sinn besta leik í vetur. Þeir Allan, Flake, Hafþór, Pálmi og Pétur áttu allir frábæran leik og leystu þeir Óðinn, Sigurður og Áskell sín hlutverk mjög vel þegar hvíla þurfti þessa lykilmenn. Óhætt er að segja að frammistaða Péturs Más og Pálma hafi staðið uppúr í kvöld, en þeir léku báðir frábærlega og stigu vart feilspor. Darrel Flake var að vanda, óstöðvandi. Það er ekkert nýtt.

Stjörnumenn á hinn boginn þurfa að líta í eigin barm. Liðið virðist skipta um erlenda leikmenn jafn oft og þeir æfa körfubolta og slíkur óstöðugleiki færir engu liði gæfu. Innan liðsins eru mjög hæfileikaríkir leikmenn og getur þetta lið unnið öll lið á góðum degi, en það er stöðugleikinn sem gerir lið góð, ekki bara skeinuhætt.

Texti: Skallagrimur.org

Myndir: Svanur Steinarsson

{mosimage}

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -