spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaSigtryggur Arnar kveður Tindastól

Sigtryggur Arnar kveður Tindastól

Sigtryggur Arnar Björnsson hefur ákveðið að söðla um eftir árs veru á Sauðárkróki. Hávær orðrómur hefur verið þess efnis síðustu daga en hefur ekki fengist staðfestur. Í kvöld setti Arnar á Instagram kveðju þar sem hann kveður Tindastól. 

 

Arnar var með 19,4 stig, 4 fráköst og 3,3 stoðsendingar að meðaltali í 26 leikjum á síðustu leiktíð með Tindastól. Sauðkrækingar urðu bikarmeistarar í fyrsta sinn í sögunni á nýliðnu tímabili og var Arnar hluti af því. Arnar var valinn í A-landsliðið á leiktímabilinu en meiðsli komu í veg fyrir að hann tæki þátt í þeim glugga sem nú er nýlokið.

 

Sigtryggur segir á Instagram: „Ég er mjög þakklátur að hafa fengið að vera partur af þessu sögulega tímabili með frábærum liðsfélögum og stuðningsmönnum.“ Arnar kom til liðs við Tindastól frá Skallagrím en hann lék áður með Breiðablik, Tindastól og lék í Kanada einnig. 

 

Vísir.is greindi frá því fyrr í dag að Grindavík og Stjarnan hafi sýnt honum mikinn áhuga. Þar segir einnig að Grindvíkingar séu líklegastir til að hreppa Arnar.

 

Það er mikill skellur fyrir Tindastól að missa Arnar frá liðinu en liðið hefur þó bætt við sig þremur sterkum leikmönnum uppá síðkastið. Danero Thomas, Brynjar Þór Björnsson og Urald King hafa allir samið við Tindastól og verður áhugavert að sjá hvað gerist nú þegar Arnar yfirgefur liðið.

 

Fréttir
- Auglýsing -