Leikstjórnandinn öflugi Sigtryggur Arnar Björnsson hefur gert nýjan tveggja ára samning við Skallagrím. Hann verður því með liðinu áfram í 1. deildinni á næstu leiktíð.
Þetta eru góð tíðindi fyrir Borgnesinga því Sigtryggur Arnar stimplaði sig rækilega til leiks í vetur í Skallagrímsbúningnum. Hann var lykilmaður og einn stigahæsti leikmaður liðsins með 16,7 stig að meðaltali í leik. Að auki var hann með 4,3 fráköst, 5 stoðsendingar og 2,6 stolna bolta í leik. Fyrir frammistöðu sína var hann útnefndur leikmaður ársins á lokahófi meistaraflokks í síðasta mánuði.
Sigtryggur Arnar er fæddur 1993 og varð 22 ára gamall 7. mars síðast liðinn. Næsta tímabil verður hans annað með Skallagrími. Að sögn Arnar Víðis Jónssonar formanns kkd. Skallagríms er mikil ánægja með að Sigtryggur Arnar verði áfram í Borgarnesi. Í sama streng tók Sigtryggur Arnar sem lítur með eftirvæntingu til næsta tímabils.
Frétt: Skallagrimur.is
Myndir: Arnar Víðir, formaður kkd. Skallagríms og Sigtryggur Arnar skrifa undir og handsala samninginn. (Haraldur Már Stefánsson)



