spot_img
HomeFréttirSigrún: Ræðst á baráttu og vilja

Sigrún: Ræðst á baráttu og vilja

„Við höfum ekki ennþá náð að vinna toppliðið en báðir leikirnar hafa verið mjög jafnir, tap með 6 og 3 stigum. Þær hafa reyndar aðeins tapað 1 leik í vetur,“ sagði Sigrún Sjöfn Ámundadóttir leikmaður Norrköping Dolphins í Svíþjóð við Karfan.is. Sigrún og stöllur í liði Höfrunganna hefja leik í kvöld í undanúrslitum sænsku deildarinnar og þar er andstæðingurinn Udominate Basket, sjálft toppliðið.

„Við erum sjálfar að spila betur með hverjum leik og má segja að það hefur verið svakalegur viðsnúningur og í raun liðið svart og hvítt ef við horfum á leik okkar fyrir og eftir áramót. Við erum að spila betur með hverjum leik og þá sérstaklega varnarlega en við erum sterkt varnarlið og ef við horfum á 8-liða úrslit til að mynda þá héldum við Mark í 84 stigum í báðum leikjunum til samans í seríunni,“ sagði Sigrún sem mun hafa nóg að gera því næstu andstæðingar eru hávaxnir

„Udominate er með hávaxið lið en vilja samt sem áður keyra upp hraðann og skora flest sín stig úr hröðum sóknum, þær eru samt sem áður ekki jafn sterkar varnarlega en eru þó með tvær tæplega tveggja metra stelpur inni í teignum sem hefur sitt að segja. Við erum með talsvert minna lið en ef við náum að stýra hraðanum í leiknum og stýra inn á veikleika þeirra þá ættum við vera í ágætum málum,“ sagði Sigrún en flestir búast við að toppliðið fari upp úr seríunni að sögn Sigrúnar. 

„Við höfum tekið nokkra video fundi fram að leik þar sem þjálfarinn greinir leik þeirra í tætlur, veikleika og styrkleika í leik þeirra ásamt hverjum og einum  leikmanni (hvaða hreyfingar þær gera og hvernig þær skora) sem hjálpar mikið.  Allir búast við sigri Udominate úr þessari seríu en ég tel að þetta séu 50/50 möguleikar fyrir okkur og þá sérstaklega ef að við náum að spila harða og góða vörn sem er lykill í okkar leik ásamt fráköstum. Þannig að ég tel að þegar að allt kemur til alls kemur þetta niður á baráttu og vilja.“

Fréttir
- Auglýsing -