spot_img
HomeFréttirSigrún: Erum með mjög duglegar stelpur í hópnum

Sigrún: Erum með mjög duglegar stelpur í hópnum

21:46
{mosimage}

(Sigrún Sjöfn Ámundadóttir)

Borgnesingurinn Sigrún Sjöfn Ámundadóttir var sæl með sigurinn gegn Grindavík í kvöld en hún vildi ekki kvitta upp á að KR hefði vanmetið Grindavík fyrir viðureignina í kvöld. Sigrún sagði að Grindavík hefði komið með óvænt útspil en sem betur fer hefði KR-ingum tekist að finna við því svar.

,,Við vorum á hælunum í byrjun leiks en í hálfleik færðum við okkur upp á tærnar og þá náðum við þessu saman,“ sagði Sigrún Ámundadóttir í leikslok en hún var með 15 stig, 9 fráköst og 4 stoðsendingar í leiknum.

Það hefur ekki verið neitt leyndarmál í vetur að kvennalið KR leggur mikið upp úr varnarleiknum og spilar hann af krafti. Sigrún tók undir: ,,Við berjumst vel og hendum okkur á eftir öllum boltum, við erum með mjög duglegar stelpur á borð við Helgu og Gróu sem eru að skila okkur 2-3 sóknum í einu og þá er Hildur að stjórna þessu vel og ég myndi bara segja að við værum með hörkulið í alla staði,“ sagði Sigrún en vildi ekki meina að í upphafi leiks hefði verið um vanmat af hálfu bikarmeistara KR að ræða.

,,Nei, ég vil ekki meina að um vanmat hafi verið að ræða heldur fannst mér við ekki mæta tilbúnar í leikinn því Grindavík kom bara með eitthvað nýtt sem við vorum ekki tilbúnar fyrir,“ sagði Sigrún og viðurkenndi að svæðisvörn Grindavíkur hefði strítt þeim.

,,Við vorum kaldar í byrjun en fórum svo að finna glufur á vörninni þeirra og þá fór þetta að virka vel hjá okkur,“ sagði Sigrún sem vildi vera spar á stríðsyfirlýsingarnar þegar hún var spurð að því hvort KR kæmi aftur í Vesturbæinn. ,,Við verðum bara að sjá til á fimmtudaginn,“ sagði Sigrún Sjöfn Ámundadóttir sem var í óðaönn að rífa af sér teip þegar Karfan.is náði af henni tali en Sigrún meiddist á hægra hné í deildarleiknum gegn Haukum á dögunum.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -