spot_img
HomeFréttirSigrún Björg fór í Marsfárið með Chattanooga Mocs "Alveg geggjuð upplifun"

Sigrún Björg fór í Marsfárið með Chattanooga Mocs “Alveg geggjuð upplifun”

Hafnfirðingurinn Sigrún Björg Ólafsdóttir hefur leikið með háskólaliði Chattanooga Mocs í Tennessee í Bandaríkjunum síðan árið 2020, en Mocs leika í Southern deild efstu deildar háskólaboltans.

Í leik með Haukum 2018

Þrátt fyrir að hafa verið aðeins 19 ára þegar hún hélt út hafði Sigrún Björg unnið Íslandsmeistaratitilinn með uppeldisfélagi sínu Haukum í Hafnarfirði þegar hún var 17 ára árið 2018. Sú úrslitasería Hauka gegn Val fór alla leið í oddaleik og setti Sigrún Björg meðal annars 11 stig í lokaleiknum. Sigrún var að sjálfsögðu hluti af öllum yngri landsliðum Íslands og var komin í a landsliðið árið 2019, en vegna ósamræmis á milli bandaríska háskólaboltans og FIBA hefur hún aðeins náð 7 leikjum fyrir liðið.

Í leik fyrir Ísland

Chattanooga Mocs áttu góðu gengi að fagna á þessu síðasta tímabili. Í heild vinna þær 20 leiki og tapa 13 í deildinni. Þá vinna þær úrslitakeppni Southern deildarinnar og tryggja sér þar með þáttökurétt í Marsfárinu, sem er stærsta háskólamót hvers árs, en þangað hafði liðið ekki farið síðan árið 2017.

Sigrún hefur verið í stóru hlutverki hjá Chattanooga síðan hún fór fyrst út fyrir þremur tímabilum. Á þessu tímabili lék hún 33 mínútur í leik og skilaði á þeim 6 stigum, 2 fráköstum, 2 stoðsendingum og stolnum bolta að meðaltali. Þá skaut hún boltanum nokkuð vel fyrir utan þriggja stiga línuna á tímabilinu, 38%.

Karfan hafði samband við Sigrúnu og spurði hana út í tímann sinn með Chattanooga Mocs, hvernig hafi verið að fara í Marsfárið, hvað framtíðin beri í skauti sér og fleira.

Hvernig fannst þér síðasta tímabil ganga hjá ykkur í Chattanooga Mocs?

“Það gekk bara mjög vel, fengum nýjan þjálfara sem kom með margt nýtt inn sem hjálpaði okkur mikið. Áttum góðan séns á deildarameistaratitlinum en enduðum í 2 sæti í deildinni en unnum svo tournamentið til að komast í March Madness.”

Hvernig gekk þér persónulega á tímabilinu, ertu sátt?

“Já bara mjög sátt með tímabilið, fannst ég bæta mig með hverjum leik og fékk hlutverk sem hentaði mér.”

Hvernig er stemningin í Tennessee?

“Stemmingin er bara mjög góð hérna úti, fullt af svo góðu fólki sem hefur hjálpað mér. Mesta breytingin fyrir mér er maturinn og veðrið örugglega. Annars bara voða fínt að búa herna í Tennessee.”

Er körfuboltinn ólíkur því sem þú hafðir vanist heima?

“Já, finnst meira pælt í smáatriðum hérna úti og fleiri af stærri leikmönnum.”

Að hvaða leyti finnst þér þú vera þróast sem leikmaður þarna úti?

“Hef verið að spila í allskonar stöðum á vellinum sem hefur hjálpað mér með fjölbreytileika inná vellinum og svo er maður bara alltaf á auka æfingum, 1on1 með þjálfurunum sem hjálpa svakalega.”

Þú fylgist væntanlega vel með Subway deildinni þarna úti, hvernig líst þér á hvernig tímabilið hefur þróast, hverjir heldur þú að séu líklegastar til að verða meistarar?

“Jájá, reyni að fylgjast með eins og ég get. Held að Haukar taki þetta í ár, hef fulla trú á þeim.”

Þið farið alla leið í Marsfárið, hvernig var að taka þátt í því?

“Já, það var alveg geggjuð upplifun. Umgjörðin í kringum þetta var bara klikkuð, en að fá að spila fyrir framan 9000 manns í svakalegri höll var örugglega eftirminnanlegast. Klikkað dæmi.”

Verður þú áfram úti á næsta tímabili, eða hvert er förinni heitið eftir þetta?

“Já, stefni á að klára seinasta árið mitt hér í Chattanooga”

Fréttir
- Auglýsing -