spot_img
HomeFréttirSigný: Hef styrkt mig mikið

Signý: Hef styrkt mig mikið

 
Eflaust voru þeir margir sem kættust í gærkvöldi þegar drottning teigsins, Signý Hermannsdóttir, sneri aftur inn á parketið en hún skoraði sex stig í naumum sigri Íslandsmeistara KR gegn Grindavík í Iceland Express deild kvenna í gærkvöldi. Endurkoman hafði verið í farvatninu og í gærkvöldi var komið að því, Signý sagði við Karfan.is í dag að nú væri mottóið að njóta þess að spila.
Hvað gerði útslagið, ertu orðin góð af meiðslunum sem voru að hrjá þig mest alla síðustu leiktíð?
Ég held ég hafi bara þurft andlega og líkamlega hvíld frá körfu í smá stund, en núna er ég komin á þann stað að mig langar að byrja að spila aftur. Meiðslin sem voru að hrjá mig eru álagsmeiðsli þannig að það kemur í ljós hvort að ég sé orðin góð af þeim þegar álagið kemur. Ég hef styrkt mig mikið síðustu mánuði enda var ég orðin eitt mesta fransbrauðið í deildinni í fyrra. Vonandi skilar það sér.
 
Hvernig leið þér í leiknum í gær?
Mér leið bara vel í leiknum í gær þó hann hafi ekki verið fallegur. Gaman að spila körfu aftur og vera í kringum þessar fínu stelpur í KR liðinu.
 
Eigið þið í KR meira inni en þið hafið verið að sýna á tímabilinu til þessa?
Já, ég held að KR liðið eigi þónokkuð meira inni og vonandi get ég hjálpað eitthvað til með það.
 
Hvernig leggst framhaldið í þig?
Framhaldið hjá KR leggst mjög vel í mig og ég er spennt að spila og hafa gaman að því. Núna verður bara mottóið að njóta þess að spila!
 
Ljósmynd/ Tomasz Kolodziejski: Signý þurfti hvíld frá körfu á sínum tíma en er nú komin aftur inn á parketið.
 
Fréttir
- Auglýsing -