spot_img
HomeFréttirSigný: Getum ekki vanmetið Sviss

Signý: Getum ekki vanmetið Sviss

19:00
{mosimage}

(Signý Hermannsdóttir, fyrirliði íslenska liðsins)

Íslenska kvennalandsliðið hefur leik á morgun í síðari hluta B-deildar Evrópukeppninnar þegar liðið mætir Sviss ytra kl. 16:00 að íslenskum tíma. Þar mætast því botnliðin því Sviss situr á botninum og hefur tapað öllum sínum fimm leikjum en íslenska liðið hefur einn sigur í fimmta og næstneðsa sæti. Karfan.is ræddi stuttlega við Signýju Hermannsdóttur fyrirliða íslenska liðsins sem sagði íslenska liðið á góðum degi vel geta unnið öll liðin í riðlinum. Signý fær það vandasama verkefni að binda saman íslensku vörnina enda leiðir hún riðilinn í vörðum skotum með 2,3 varin að meðaltali í leik.

Verður þú orðin illa lemstruð eftir teigbaráttuna þegar septembermánuður rennur loksins upp?
Nei, ætli það, þá bara á skemmtilegan hátt. Það er alltaf gaman af því að berjast við sér stærri og sterkari leikmenn og það er ólíkt að leika landsleiki og svo deildarleiki hér heima.

Er það líkamlega meira krefjandi að leika landsleikina?
Nei, ég myndi ekki segja það, þetta er bara stærra og sterkara svið og þá sérstaklega þegar litið er á Svartfjallaland þar sem flest allar í liðinu eru hærri en ég nema þá kannski leikstjórnandinn þeirra.

Er einhugur í íslenska liðinu um að ná þremur sigurleikjum eins og auglýst var fyrr í vikunni?

Já og auðvitað ætlum við að reyna að stela hinum leikjunum líka því á góðum degi getum við unnið öll þessi lið, það er ekki spurning. Þrír leikir eru gott markmið núna því við vorum ekki sáttar við árangur okkar í fyrri hluta keppninnar og við vitum að við áttum að gera oft miklu betur.

Nú eigið þið þrjá heimaleiki og eru það sigurleikirnir sem þið stefnið á?

Það er klárlega betra að vera á heimavelli því ferðalögin geta tekið á og því ætti klárlega að vera betra að leika heima og stefnum vissulega á sigur í öllum heimaleikjunum okkar.

Getur þú gefið okkur einhverja innsýn á svissneska liðið?
Við getum ekki leyft okkur að vanmeta þær og mætum brjálaðar í leikinn og ætlum að ná í okkar fyrsta sigur í þessum síðari hluta. Ég lít ekki á þennan leik sem skylduverkefni og við erum ekki búnar að vinna neitt þrátt fyrir að hafa unnið Sviss í fyrra. Við förum bara í hvern leik fyrir sig, undirbúnar fyrir allt og vitum að það verður ekki auðvelt að leggja Sviss á útivelli.

Nú ert þú búin að eiga þau ófá landsliðssumrin, hefur þú alltaf jafn gaman af þessum verkefnum?

Já, annars væri ég ekki hérna. Það koma kannski smá tímabil inn á milli þar sem það er erfiðara að mæta á æfingu en ella en já mér finnst alltaf jafn gaman af þessu. Ég er betri í skrokknum en ég hef oft áður verið og því er ég bara nokkuð bjartsýn.

Hægt verður að nálgast beina tölfræðiútsendingu frá leiknum á tenglinum hér að neðan:
http://www.eurobasketwomen2009.com/en/cid_X6FnqP4DGbURoW6MX7dzD2.pageID_fBzdXFOEJU-UWMEdXaZC-3.compID_pnlxO1HYJhUh,MTfrmUO03.season_2009.html

[email protected]

Mynd: [email protected] 

Fréttir
- Auglýsing -