spot_img
HomeFréttirSigný: Förum í alla okkar leiki til að vinna

Signý: Förum í alla okkar leiki til að vinna

10:20

{mosimage}
(Signý Hermannsdóttir fyrirliði íslenska landsliðsins)

Kvennalandslið Íslands hefur keppni í B-deild Evrópukeppninnar annað kvöld er liðið tekur á móti Sviss að Ásvöllum í Hafnarfirði kl. 19:15. Karfan.is náði tali af Signýju Hermannsdóttur landsliðsfyrirliða sem segir íslenska hópinn stefna á góða byrjun og að liðið muni fara í alla sína leiki til þess að ná fram sigri.

,,Á Norðurlandamótinu fengum við okkar æfingaleiki fyrir þessa Evrópukeppni, það var okkur dýrmætt og margt á Norðurlandamótinu sem gerði okkur kleift að laga ýmislegt í okkar fari en verst að við náðum ekki að klára allavega tvo leiki þar sem við áttum góða möguleika,“ sagði Signý en Ísland mátti sætta sig við ósigur í öllum sínum leikjum á Norðurlandamótinu. ,,Það er gott að hafa fengið þá reynslu og við erum búnar að taka það jákvæða út úr Norðurlandamótinu og erum að byggja á því núna.“

Nú eru sterk lið í riðli með Íslandi, lið á borð við Slóveníu og Svartfjallaland. En hvernig er með leikinn gegn Sviss annað kvöld. Er það skyldusigur fyrir íslenska liðið?

,,Ég veit voðalega lítið um svissneska liðið og hef aldrei leikið á móti því og ég býst við að þær séu með nokkuð nýjan hóp en margir þeirra leikmanna eru fæddir 1987 og síðar, sem er reyndar svipað og hjá okkur. En við ætlum okkur að taka þennan fyrsta leik og fá góða byrjun á keppninni hjá okkur. Heimavöllurinn á að vera okkar staður og á morgun ætlum við að sýna það að Ásvellir sé okkar hús,“ sagði Signý en kvennalandsliðið hefur æft að mestu að Ásvöllum í sumar en Signý segir það ekki skipta öllu máli í hvaða húsi verði leikið.

,,Það er bara Ísland sem skiptir máli en við höfum æft mikið að Ásvöllum og það skiptir einhverju máli að spila í húsinu sem þú æfir og þekkir vel körfurnar og þess háttar,“ sagði Signý. Aðspurð um markmið hópsins svaraði hún því til að markmiðið væri að fara í alla leiki til að vinna, spila sem best og sjá svo hver útkoman verði.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -