spot_img
HomeFréttirSigný: Allir að bæta þegar færist nær vorinu

Signý: Allir að bæta þegar færist nær vorinu

Signý Hermannsdóttir stýrði liði Skallagríms í kvöld sem vann 56-62 útisigur á KR í 1. deild kvenna. Signý hélt um stjórnartaumana í fjarveru Manuel ANgel Rodriguez Escudero sem tók út leikbann. Signý sagði við Karfan.is eftir leik að Skallagrímur hefði byrjað tímabilið vel en nú væru allir að bæta við sig þegar vorið færist nærri.

„Það er slatti eftir af leikjum í þessari 1. deild og því ómögulegt að segja hvernig þetta verður,“ svaraði Signý en yfirgnæfandi líkur eru á því að Skallagrímur verði deildarmeistari og leiki til úrslita um sæti í úrvalsdeild við liðið í 2. sæti deildarinnar. Hún treysti sér ekki til að tippa á hvaða lið myndi hafna í 2. sæti. 

 

„Það myndi valda manni miklum heilabrotum ef maður ætlaði eitthvað að spá í það en KR, Njarðvík og Þór eru líklegust,“ sagði Signý en hvernig metur hún önnur lið í deildinni svona dagana tekur að lengja?

 

„Við byrjuðum vel en þegar þetta færist nær vorinu eru allir að bæta sig. Í kvöld var þetta bara hörkuleikur enda KR með flott lið svo þetta gat farið á hvorn veginn sem var. Mér finnst deildin jöfn en það sýnir styrk að vera með 15 sigra og aðeins einn tapleik á þessum tímapunkti í deildarkeppninni. Við ætlum okkur heimaleikjaréttinn og sama hvaða liði við mætum í úrslitum þá verður það hörku sería. Borgarnes er erfiður völlur svo það verður gott að ná að tryggja sér heimaleikjaréttinn.“

 

Aðspurð hvort hana kitli ekki til að klæða sig í búninginn sagði Signý: „Ég hætti ekki af sjálfsdáðum heldur vegna meiðsla í hásin. Vonin er alltaf til staðar en hún er hverfandi. En talaðu bara við hana „Haddý“ (Hafdís Elín Helgadóttir) – hún er 51 árs en hana langar alltaf inná! Ég á samt ennþá séns en hann er lítill. Ég er komin úr gipsi svo hvað veit maður…þetta er allt á uppleið,“ sagði Signý og var bara nokkuð óræð, hver veit nema við sjáum hana skarta Skallagrímsbúningnum bráðlega?

Mynd/ Bára Dröfn

Fréttir
- Auglýsing -