Sigmundur Már Herbertsson dæmdi leik Rivas Ecopolis og Nadezhda Orenburg frá Rússlandi á Spáni í gærkvöld og sigruðu heimastúlkur örugglega 90-71.
Leikurinn var í B riðli Meistaradeildar kvenna og eru þær spænsku nú með tvo sigra eftir tvo leiki en þær rússnesku án sigurs. Sigmundur sagði í stuttu spjalli við karfan.is í gær að hann hafi hitt gamlan félaga þegar hann fór að kíkja á höllina en Alexander Ermolinskij er aðstoðarþjálfari rússneska liðsins.
Pétur Hrafn Sigurðsson var eftirlitsmaður leiks Bakken Bears og Kataja Basket frá Finnlandi í Árósum í Danmörku í fyrrakvöld. Danirnir unnu leikinn 101-90 þar sem mikið var um tilþrif. Bakken situr á toppi G riðils í Eurochallengekeppninni eftir tvo sigra.



