spot_img
HomeFréttirSíðustu verk Söru á Íslandi…í bili

Síðustu verk Söru á Íslandi…í bili

Úrslit Domino´s-deildar kvenna verða síðustu verk Söru Rúnar Hinriksdóttur í íslensku úrvalsdeildinni… í bili. Sara Rún er á leið til Bandaríkjanna í nám í sumarlok. Sara hefur fengið skólastyrk hjá Canisius College í New York.

 

Sara er að ljúka stúdentsprófi á þremur árum og því heldur hún utan til Bandaríkjanna í ágúst. Hún á því aðeins eitt verk eftir hérlendis í bili og er það sjálf úrslitarimma Snæfells og Keflavíkur sem hefst næstkomandi miðvikudag. 

Á nýafstöðnu tímabili hafnaði Canisius í 9. sæti Metro Atlantic Athletic Conference með 8 sigra og 12 tapleiki í riðlinum. Canisius leikur í 1. deild kvennakörfunnar en komust ekki í úrslitakeppni MAAC-riðilsins. Annar íslenskur leikmaður leikur með Canisius en það er Hauka-stúlkan Margrét Rósa Hálfdánardóttir.

Sara skipar sér því á bekk með vesturförum en á meðal þeirra sem stunda nú háskólanám þar í landi eru Kristófer Acox, Martin Hermannsson, Gunnar Ólafsson, Elvar Már Friðriksson, Hildur Björg Kjartansdóttir, Margrét Rósa og á dögunum festi Matthías Orri Sigurðarson sig einnig ytra. Einng er nokkur hópur á miðskólastigi. 

Fréttir
- Auglýsing -