spot_img
HomeFréttirSíðustu þrír á útivelli hjá KR

Síðustu þrír á útivelli hjá KR

Íslandsmeistarar KR hafa fjórum sinnum unnið Íslandsmeistaratitilinn frá og með árinu 2009. Það ár fór KR í sögulega seríu gegn Grindavík sem lauk með 3-2 sigri KR í DHL-Höllinni. Síðan þá hafa bæst við þrír titlar í safn þeirra KR-inga en þeir hafa allir fallið félaginu í skaut á útivelli.

 

Árið 2011 stýrði Hrafn Kristjánsson liðinu til sigurs og hafði KR þá 3-1 sigur gegn Stjörnunni og titillinn fór á loft í Ásgarði. 2014 lagði KR ríkjandi Íslandsmeistara Grindavíkur 3-1 í úrslitaseríunni og þá fór titillinn á loft í Röstinni og Finnur Freyr Stefánsson kominn við stjórnartaumana. Undir stjórn Finns hefur KR tekið fá feilspor og liðið eins og öllum er kunnugt varð Íslandsmeistari í gærkvöldi þar sem titillinn fór á loft á Sauðárkróki eftir 3-1 sigur KR í einvíginu.

Finnur Freyr hefur því í tvígang stýrt KR að titli, fagnað þeim báðum á útivelli og fyrir ykkur sem eruð dugleg að setja ykkur markmið þá er ekki ósennilegt að næsta markmið Finns líti einhvern veginn svona út:
-Vinna þann stóra þriðja árið í röð… en núna heima.

Síðustu fjórir titlar KR og hvar þeir fóru á loft: 

2015: KR Íslandsmeistari og titillinn á loft í Síkinu, heimavelli Tindastóls.
2014: KR Íslandsmeistari og titillinn á loft í Röstinni, heimavelli Grindavíkur.
2011: KR Íslandsmeistari og titillinn á loft í Ásgarði, heimavelli Stjörnunnar.
2009: KR Íslandsmeistari og titillinn á loft í DHL-Höllinni. 

Mynd/ Jón Björn – Finals-Finnur veifar þeim stóra í átt að stuðningsmönnum KR í Síkinu í gærkvöldi.

Fréttir
- Auglýsing -