spot_img
HomeFréttirSíðasti leikur Kevin Durant fyrir Thunder?

Síðasti leikur Kevin Durant fyrir Thunder?

 

Margt hefur verið bæði sagt og ritað síðastliðið árið um það hvort að þetta væri síðasta tímabil fyrrum verðmætasta leikmanns deildarinnar, Kevin Durant, fyrir Oklahoma City Thunder þar sem samningur hans við liðið er að renna út. Nánast allir málsmetandi menn hafa einhverja skoðun á því hvert hann muni fara, eða ekki. Svo sem ekki skrýtið, þar sem leikmaður með hans hæfileika ætti væntanlega að geta stórbreytt stöðu hvaða liðs sem er í deildinni. Síðast þegar að við sáum leikmann (Lebron James til Miami Heat 2010) af svipaðri stærðargráðu með lausan samning, þá skipti sá leikmaður um lið og breytti landslagi úrslita NBA deildarinnar verulega næstu árin á eftir.

 

 

Hvaða þætti tekur hann til greina þegar að því kemur að velja sér lið. Eru það peningar, skylda eða möguleiki að vinna titil?

 

Fyrir þetta tímabil voru líkurnar teknar saman hjá einum veðbankanum sem slíkar:

Oklahoma City Thunder 1/3
Los Angeles Lakers 4/1
Washington Wizards 5/1
Miami Heat 10/1
Chicago Bulls 15/1
New York Knicks 20/1
Houston Rockets 25/1
Los Angeles Clippers 25/1
Dallas Mavericks 50/1
Toronto Raptors 50/1
Boston Celtics 75/1
Atlanta Hawks 100/1
Brooklyn Nets 100/1
Phoenix Suns 100/1

 

 

Við getum nokkurnvegin gefið okkur það að þangað sem hann fer, mun hann fá hæstu leyfilegu upphæð í laun. Svo að það í raun jafnar möguleika allra þeirra liða sem kost eiga (undir launaþakinu) að borga honum slíka upphæð í laun. Þetta sumarhlé hækkar sú upphæð reyndar eilítið, en hún gerir það jafnt hjá liðunum (fer úr 70 mil.$ í 92 mil. $) svo að slík hækkun ætti bara að setja fleiri lið í aðstöðu heldur en áður. 

 

Ber Kevin Durant einhverja skyldu gagnvart heimabæ sínum, Washington? Getur verið að hann vilji fara aftur þangað sem þetta byrjaði alltsaman fyrir hann og spila fyrir gamla heimalið sitt í Washington Wizards? Til að gera þau mál enn meira spennandi fyrir aðdáendur liðsins, þá voru forráðamenn þess að enda við að ráða fyrrum þjálfara Durant hjá Oklahoma, Scott Brooks. Samkvæmt nýjustu fregnum er Durant þó ekkert sérstaklega spenntur fyrir þessum möguleika.

 

Los Angeles Lakers eru með mest pláss allra á launaskrá sinni fyrir leikmenn, en þó liðið sé með nokkra mjög efnilega leikmenn innanborðs, þá er það ekki talið líklegt að Durant, á sínu 10. ári í deildinni, fari til liðs sem að á enn jafn langt í land með að ná í titil og þeir. Lakers verður hinsvegar inni í umræðunni alveg þangað til hann svo (sem mun gerast) að lokum skrifar undir hjá einhverjum öðrum.

 

New York Knicks er annað risastórt lið sem hefu nægt pláss og risastóran markað (til annarskonar tekjumöguleika) fyrir jafn stóran leikmann og Durant, en af mjög svipuðum ásæðum og hjá Los Angeles, fer hann ekki þangað.

 

Það á eftir að vera rætt hvort hann skrifi undir samning hjá Dallas Mavericks. Einfaldlega vegna þess að alltaf þegar að stórt nafn er í boði, þá er Mark Cuban í sambandi við aðilann. Kevin Durant er ekkert undanskilinn.

 

Hjá Houston Rockets koma tveir mjög stórir áhrifavaldar þeim inn í umræðuna. Þar þarf hann ekki að borga tekjuskatt, sem myndu í raun þýða hærri laun fyrir okkar mann sem og fengi hann aftur að spila með gömlum félaga sínum frá Oklahoma, James Harden.

 

Los Angeles Clippers myndu þurfa að senda einn af tríói sínu, Chris Paul, Blake Griffin eða DeAndre Jordan ásamt líklega J.J. Reddick, eitthvað annað. Þetta var almennt ekki talið líklegt framan af vetri, en miðað við hvernig vonir Clippers manna fuðruðu upp eftir áramót og allan þann orðróm um að það þurfi að gera eitthvað við liðið, telst þessi möguleiki æ líklegri. Hver veit nema Blake verði sendur heim til Oklahoma og Durant komi sér í stöðu til þess að vinna strax á næsta tímabili við hlið Deandre Jordan og Chris Paul?

 

Fer hann mögulega til liðsins sem hann tapaði svo illa fyrir í undanúrslitum þessa árs, Golden State Warriors? Ólíklegt þykir að keppnismaður eins og Kevin Durant lifi fyrir orðin "if you cant beat them, join them", en ef svo ólíklega vill til þá er möguleikinn alveg til staðar. Þarna myndi Durant mjög líklega vinna titil strax á næsta ári. Reyndar þyrftu Warriors aðeins að taka til hjá sér fjárhagslega. Losa sig við Harrison Barnes þykir líklegast. Það er alltaf möguleiki.

 

San Antonio Spurs eru annar kostur. Þar sem reyndar eins og hjá Warriors þyrftu þeir að losa um leikmenn. Samningar Tim Duncan og Manu Ginobli eru nefndir í þeim efnum. Vissulega góður kostur til þess að vinna titil fyrir Durant sem og fyrir liðið. Afhverju ætti Kevin Durant ekki að fara til San Antonio?

 

Boston Celtics er annað gott lið sem hefur nægt fjárhagslegt pláss til þess að gera samning við Durant. Það sem enn betra er kannski sú staðreynd að liðið hafi unnið 48 leiki síðastliðinn vetur án þess að hafa innanborðs neinn einn stjörnuleikmann (þó I.Thomas hafi verið valinn í stjörnuleikinn). Gæti Durant ekki verið stjarnan sem lyftir Celtics upp á næsta plan? Þar myndi hann einnig komast úr villta vestrinu í fyrsta skipti og þar með ekki þurft að hafa áhyggjur af því að komast í gegnum Warriors, Clippers eða Spurs á leið sinni til úrslita.

 

Fer Durant til Miami Heat? Pat Riley hefur löngum verið álitinn einn besti "head-hunter" deildarinnar. Ekki versnaði það við það þegar við sáum síðast fram á að slíkur leikmaður væri á lausu, Lebron James. Riley náði í hann og þeir unnu tvo titla saman. Fjárhagslega er þetta alveg hægt fyrir Heat og verður þeim enn nauðsynlegra ef málin standa þannig að Chris Bosh fái ekki að spila aftur

 

Líklegast af öllu þykir þó að Durant semji aftur við Oklahoma City Thunder. Líklega til tveggja ára þar sem að seinna ár samningsins væri undir honum komið hvort hann væri áfram. Eftir allt, þá fær hann mesta mögulega peninga þar og hann veit að hverju hann gengur hjá liði sem fór með sigusælasta lið allra tíma í oddaleik í undanúrslitum. Fyrirfram var talið að færi tímabilið illa fyrir Thunder, væri ólíklegra að hann kæmi aftur. Spurning dagsins er því, fór tímabilið illa fyrir Thunder? Hefur hann trú á að hann geti gert betur annarsstaðar?

 

Sama hver ákvörðun Durant verður, hlýtur það að teljast líklegt að hann skrifi undir 1-2 ára samning við eitthvað lið. Til þess að nýta í framtíðinni sem best hið hækkandi launaþak NBA deildarinnar. Þrátt fyrir að hafa spilað í deildinni öll þessi ár, þá er hann aðeins 27 ára gamall og á því mögulega sín bestu ár enn eftir. Mikið vatn á eftir að renna til sjávar þangað til að næsta tímabil hefst og það verður spennandi að fylgjast með hvert, ef eitthvað, Kevin Durant ákveður að að fara.

 

Hér að neðan er það sem að hann hafði að segja eftir tap í oddaleik undanúrslita í nótt gegn ríkjandi meisturum Golden State Warriors:

Fréttir
- Auglýsing -