spot_img
HomeFréttirSíðasta umferðin fyrir jól í kvöld

Síðasta umferðin fyrir jól í kvöld

 
Í kvöld hefst síðasta umferðin fyrir jólahlé í Iceland Express deild karla. Þrír leikir eru á dagskránni sem allir hefjast kl. 19:15. Bæði Stjarnan og Njarðvík freista þess að ná sér í sigra í kvöld en fari svo þá jafna þau KR á toppi deildarinnar.
Njarðvík tekur á móti botnliði FSu í Ljónagryfjunni og hafa Njarðvíkingar ákveðið að hafa frítt á leikinn, jólagjöf KKD UMFN til stuðningsmanna þetta árið. Eins og flestum er kunnugt sitja FSu á botni deildarinnar án stiga og hafa vart verið svipur hjá sjón síðan teknar voru í gildi refsingar sökum agabrota nokkurra leikmanna. Njarðvík er á fullu í toppbaráttunni á hinum endanum og því allt útlit fyrir að FSu sé að ganga inn í enn eina útreiðina.
 
Breiðablik og Stjarnan mætast í nágrannaslag í Smáranum í Kópavogi en Blikar eru í 10.-11. sæti deilarinnar ásamt Fjölnismönnum, bæði lið hafa unnið tvo leiki og því um mikilvæg stig á báða bóga að ræða í kvöld. Ef Stjörnunni tekst að vinna verða þeir í fyrsta sinn í sögu félagsins á toppi deildarinnar yfir jólahléð þar sem þeir hafa betur innbyrðis gegn Njarðvík og KR.
 
Þriðji og síðasti leikurinn í úrvalsdeild karla í kvöld er glíma Tindastóls og Fjölnis. Aðeins munar tveimur stigum á liðunum og með sigri geta Fjölnismenn krækt sér í sjötta stigið og þannig jafnað Stólana sem eru í 9. sæti deildarinnar.
 
Umferðinni lýkur svo annað kvöld með viðureignum Grindavíkur og ÍR annarsvegar og hinsvegar með slag Hamars og Keflavíkur í Hveragerði.
 
Fjölmennum á síðustu leiki ársins!
 
 
Ljósmynd/ Verða bikarmeistarar Stjörnunnar á toppnum um jólin?
Fréttir
- Auglýsing -