spot_img
HomeFréttirSíðari hálfleikur eign Grindvíkinga

Síðari hálfleikur eign Grindvíkinga

Fjórir leikmenn Grindavíkur skoruðu 95 af 103 stigum liðsins í kvöld þegar gulir deildarmeistararnir tóku 1-0 forystu í 8-liða úrslitum Domino´s deildarinnar gegn Skallagrím. Þeirra atkvæðamestur var Aaron Broussard með 27 stig en Carlos Medlock var sem fyrr stigahæstur hjá Sköllunum með 32 stig.
 
Byrjunarlið Grindavíkur: Jóhann Árni Ólafsson, Aaron Broussard, Sammy Zeglinski, Þorleifur Ólafsson og Sigurður Gunnar Þorsteinsson
Byrjunarlið Skallagríms: Carlos Medlock, Davíð Ásgeirsson, Trausti Eiríksson, Páll Axel Vilbergsson og Hörður Helgi Hreiðarsson.
 
Grindvíkingar mættu sterkir til leiks í fyrsta leikhluta og komust í 6-0. Þá komu fyrstu stig Skallagríms en Grindavík hélt áfram og náði 11 stiga forskoti, þá tók Pálmi leikhlé fyrir gestina. Skallagrímsmenn komu ákveðnari inn á völlinni og náðu að minnka muninn niður í 23-18.
 
Skallagrímsmenn hættu ekki þegar kom í annan leikhluta og tókst þeim að byggja upp smá spennu. Þeir settu niður þrjá þrista, fyrri tveir komu frá Páli Axel Vilbergssyni og setti Egill Egilsson þann þriðja og kom Skallagrímsmönnum yfir 27-25. Þá var eins og Grindvíkingar áttuðu sig á því að sigurinn kæmi ekki á silfurfati og komust í 34-27. Grindvíkingum tókst að komast 16 stigum yfir og var staðan í hálfleik 51-35. Þar af var Páll Axel með 17 stig fyrir Skallagrím á meðan  stigaskorið dreifðist betur hjá Grindvíkingum en fjórir leikmenn voru með 10 stig eða yfir.
 
Grindavík virtist öruggt með sigur í seinni hálfleik en Skallagrímsmenn náðu ekki að komast í návist við Grindvíkinga. Þeir gáfust þó aldrei upp. Medlock átti stórleik í seinni hálfleik en virtist ekki vera að finna sig í þeim fyrri. Megin munur liðanna í kvöld var sá að einungis tveir leikmenn Skallagríms voru með 67% stiganna á meðan fjórir leikmenn Grindavíkur voru með yfir 20 stig. ??Vítanýting Grindvíkinga var ótrúleg en var hún 100% í fyrri hálfleik það er 11 af 11 sett ofan í en féll niður í 94.4% eftir þann seinni þar sem þeir klikkuðu úr einu víti, 17 af 18.
 
Stigahæstir fyrir Grindavík voru Aaron Broussard með 27 stig og 7 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 23 stig og 5 fráköst. Sammy Zeglinski var einnig með 23 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar. Sigurður Gunnar Þorsteinsson var með 22 stig og 5 fráköst.
 
Stigahæstur fyrir Skallagrím var Carlos Medlock með 32 stig en hann missteig sig á 15. mínútu en kom aftur inn þegar tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Hann skoraði einungis 6 stig í fyrri hálfleik og þar af leiðandi var hann með 26 stig í seinni hálfleik. Páll Axel Vilbergsson var með 26 stig og 7 fráköst næsti þar á eftir var Hörður Helgi Hreiðarsson en hann var með 10 stig. 
 
Liðin mætast aftur á mánudag og þá í Borgarnesi þar sem Grindavík getur með sigri tryggt sér sæti í undanúrslitum en vinni Skallagrímur verður oddaleikur í Röstinni á Skírdag.

 
 
 
Mynd/ Þorsteinn G. Kristjánsson
Umfjöllun/ Jenný Ósk
Fréttir
- Auglýsing -