Stjarnan hefur náð samningum við Justin Shouse um að leika með liðinu næsta vetur í Iceland Express deildinni. Justin leikur því sitt þriðja tímabili í röð fyrir Stjörnuna, en hann var kosinn besti erlendi leikmaðurinn í úrvalsdeildinni á síðasta tímabili, skoraði 23.8 stig og var með 6 stoðsendingar að meðaltali leik. Þetta kemur fram á www.stjarnan-karfa.is
Á heimasíðu stuðningsmanna Stjörnunnar segir:
Justin var einnig valinn íþróttamaður Stjörnunnar fyrir árið 2009. Í samtali við Justin sagðist hann vera mjög spenntur fyrir að koma aftur til Stjörnunnar enda kann hann vel við sig í Garðabænum. Hann sagðist líta björtum augum á næsta tímabil og líst vel á hópinn fyrir veturinn. Justin mun einnig þjálfa 8. og 9. flokk drengja og verða örugglega margir þeirra ánægðir með að kappinn snúi aftur enda er hann mjög vinsæll meðal yngri iðkenda.
Það má því segja að nokkuð endanleg mynd sé komin á hópinn sem spilar með Stjörnunni í vetur. Hópurinn verður að öllum líkindum nánast óbreyttur frá því í fyrravetur, fyrir utan að Ólafur Sigurðsson fer til Danmerkur í nám. Við hópinn hafa svo bæst þeir Marvin Valdimarsson og Daníel Guðmundsson sem styrkja liðið enn frekar fyrir átökin næsta tímabil.
Ljósmynd/ [email protected] – Justin í leik gegn Njarðvíkingum í úrslitakeppninni á síðasta tímabili.



