spot_img
HomeFréttirShouse átti lokaorðið í DHL-Höllinni

Shouse átti lokaorðið í DHL-Höllinni

21:03 

{mosimage}

(Brynjar var sterkur hjá KR í dag en það dugði skammt)

Snæfell leiðir undanúrslitaeinvígið gegn KR 2-1 eftir 61-63 sigur í DHL-Höllinni í dag. Staðan í hálfleik var 27-27 en Brynjar Þór Björnsson bar af á vellinum og skoraði 31 stig fyrir KR og þá gaf hann 2 stoðsendingar og stal 3 boltum.  

Lítið var skorað í leiknum og héldu gestirnir sér inní leiknum á miklum yfirburðum í fráköstum, þeir leiddu eftir fyrsta leikhluta 9-16 og eru það sjaldséðar tölur í körfuknattleik. KR-ingar fóru illa með góð færi og skoruðu þeir einungis þrjú stig síðustu fimm mínútur leikhlutans.  

Í öðrum leikhluta náðu KR-ingar að byrja sterkt og minnkuðu muninn strax í 14-16 en Snæfell voru alltaf skrefinu á undan, þeir voru yfir 19-20 þegar að um fimm mínútur voru eftir af öðrum leikhluta. Jón Ólafur kemur gestunum yfir 21-25 en þá hóf Brynjar Þór að setja þriggjastigakörfur, hann minnkaði muninn í 24-25 með þrist sem var nær miðju en þriggjastiga línunni. Justin Shouse sem lék vel fyrir gestina setti niður tvö vítaskot og kom gestunum í 24-27 þegar að um tvær mínútur voru til hálfleiks. Það var svo Brynjar Þór sem skoraði þrist til að jafna leikinn eftir góðan undirbúning Pálma Freys. Staðan í hálfleik 27-27 og lykilmenn KR-inga langt frá sínu besta.  

Þriðji leikhluti var í rauninni það sem skyldi liðin að, Sola skoraði fyrstu körfuna í síðari hálfleik en gestirnir svöruðu henni með 0-15 áhlaupi og leiddu 29-42. Þeir voru í bílstjórasætinu og KR-ingar farnir að elta  Þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum náðu KR-ingar með Brynjar Þór í fararbroddi að minnka muninn í 45-54 sem voru tölurnar eftir þrjá leikhluta.  

Fjórði leikhluti var æsispennandi og lítið skor beggja liða gerði það að verkum að hver karfa var stórkarfa. Darri kom KR í 52-57 en Justin Shouse svaraði með stórum þrist og Snæfell leiddu 52-60 þegar að um fimm mínútur voru til leiksloka. Brynjar fer í tvígang á vítalínuna og skoraði úr öllum tilraunum sínum, staðan 56-60.  JJ Sola sem var að leika langt undir getu fékk tvö vítaskot og setti bæði niður, staðan 58-60 og þrjár mínútur eftir af leiknum. Jón Ólafur fær tvö vítaskot og setur hann fyrra skotið niður. Jón Ólafur fékk svo aftur tvö skot, en hann klikkaði á báðum skotunum. Báðum liðum mistókst að nýta góð færi og þvinguðu KR-ingar alltof mikið af langskotum á raunstundu í staðinn fyrir að sækja að körfunni. KR-ingar voru einnig klaufar og óvandaðar sendingar eftir góða vörn gáfu gestunum ávallt ný tækifæri á að koma muninum í fimm stig. Brynjar Þór, maður leiksins, skorar laglega þriggjastigakörfu þegar að um 10 sekúndur voru eftir af leiknum og staðan 61-61. Justin Shouse besti maður gestanna brunaði upp allan völlinn og lagði knöttinn ofaní þegar að 3 sekúndur voru eftir, KR-ingar sem áttu ekki leikhlé eftir reyndu að skjóta en það tókst ekki og sigur Snæfell raunin.   

Næsti leikur liðanna fer fram í Stykkishólmi á mánudag og hefst hann kl. 19:15. Með sigri í þeim leik komast Snæfellingar í úrslit en ef KR nær að jafna metin verður oddaleikur í DHL-Höllinni.

 

Heimild: www.kr.is/karfa

Mynd: Stefán Helgi Valsson fyrir www.kr.is/karfa  

Fréttir
- Auglýsing -