Njarðvíkurstúlkur munu á næstu dögum fá Shantrell Moss til liðs við sig fyrir komandi baráttu í Iceland Express deild kvenna. Moss er um 180 cm að hæð og spilaði fyrir Clark háskólann í Atlanta. Hún er þó ekki við eina fjölina kennd því áður hafði stúlkan keppt í 100m hlaupi fyrir Georgia Tech háskólann þar sem hún tók 100 metrana á 11:83 sek.
Unndór Sigurðsson sagði í samtali við Körfuna að Moss komi til með að styrkja liðið gríðarlega mikið og hlakkar til að vinna með stúlkunni.
"Ég er að klára tímabilið her í Puerto Rico og svo mun ég koma til Njarðvíkur. Ég veit í raun ekkert út í hvað ég er að fara þar sem þetta er fyrsta skiptið mitt að spila í Evrópu. En vonandi get ég komið og hjálpað liðinu og verið góður liðsfélagi. Ég hef spilað í Ecuador og nú í Puerto Rico þannig að Ísland verður minn þriðji staður og eins og ég sagði er ég mjög spennt fyrir því að koma. " sagði Moss í samtali við Karfan.is
Sem fyrr segir er Moss að klára tímabilið með liði sínu í Puerto Rico og er von á henni á næstu dögum í Ljónagryfjuna.



