Bónus deild kvenna rúllar aftur af stað í kvöld með þremur leikjum.
Í kvöld mun Stjarnan taka á móti bikarmeisturum Njarðvíkur, Tindastóll heimsækir Íslandsmeistara Hauka og þá er nýliðaslagur í Laugardalshöllinni þar sem Ármann og KR mætast.
Hér fyrir neðan má sjá sex leikmenn sem gaman verður að fylgjast með í deildinni á komandi leiktíð.

Berglind Hlynsdóttir – Stjarnan – 15 ára
Ungur og efnilegur leikmaður sem gæti fengið ágætt hlutverk í vetur. Átti frábært sumar með bæði U15 og U16, varð Norðurlandameistari með U15 og var valin best á mótinu. Mjög hæfileikarík og spennandi að sjá hversu mikið traust hún fær á tímabilinu.

Rebekka Rut Steingrímsdóttir – KR – 17 ára
Þrátt fyrir að vera aðeins 17 ára er líklegt að Rebekka fái stórt hlutverk hjá nýliðunum. Hún átti frábært sumar með bæði U18og U20 landsliðinu. Virkilega efnilegur leikstjórnandi sem á sannarlega framtíðina fyrir sér.

Džana Crnac – Ármann – 19 ára
Það verður spennandi að sjá hvernig hún passar inn í leikkerfi Ármanns. Hún er alvöru „hustle player“ með þann hæfileika að geta skorað upp á eigin spýtur.

Hulda María Agnarsdóttir – Njarðvík – 17 ára
Huldu ættu flestir að þekkja eftir frábært tímabil með Njarðvík í fyrra. Nú snýr hún aftur reynslunni ríkari og verður áhugavert að sjá hana halda áfram að spila stórt hlutverk.

Þóranna Kika Hodge Carr – Valur – 26 ára
Heimkoma Þórönnu lofar góðu. Hún kemur líklega með ýmsa spennandi hluti í farteskinu og verður gaman að sjá hana í nýju liði eftir öll þessi ár í háskólaboltanum.

Helena Rafnsdóttir – Njarðvík – 21 árs
Önnur spennandi heimkoma er Helena Rafnsdóttir, sem snýr aftur til Njarðvíkur. Hún lék síðast með liðinu þegar þær urðu Íslandsmeistarar árið 2022, en hefur síðan verið í háskólaboltanum. Það verður forvitnilegt að fylgjast með henni á ný í grænu treyjunni.



