Fyrsta leik dagsins í lokaumferð B-riðils á EuroBasket var að ljúka þar sem Serbía vann sannfærandi sigur á Ítalíu, leiddu frá upphafi til enda með Milos Teodosic við stýrið og hreinsuðu þannig út B-riðil með sigur í öllum leikjum. Lokatölur í viðureign þjóðanna 101-82.
Milos Teodosic átti fyrsta leikhlutann en hann gerði 14 af 25 stigum Serba í leikhlutanum og Serbar leiddu 25-19 að honum loknum. Ítalir náðu 7-0 rispu og brúuðu þannig aðeins bilið milli sín og Serba.
Meira jafnaræði var með liðunum í öðrum leikhluta en Serbar voru við stýrið, hinn stóri og stæðilegi Raduljica var Ítölum erfiður og þá lék Marco Belinelli ekki neitt í dag. Serbar leiddu 48-40 í hálfleik þar sem Teodosic var með 19 stig og 5 stoðsendingar og þá var Danilo Gallinari með 11 stig og 3 fráköst í ítalska liðinu.
Í þriðja jókst bilið, Serbar voru einfaldlega með þetta í vasanum og Ítalir ætluðu ekki að hætta á neitt upp á framhaldið að gera svo það varð aldrei leikur úr þessu í síðari hálfleik. Serbar gáfu stuðningsmönnum sínum smá sýningu engu að síður, nokkrar „alley-up“ troðslur og fleira gott og svo lokatölur 101-82.
Milos Teodosic lauk leik með 26 stig og 8 stoðsendingar í liði Serba og Bjelica var einnig flottur með 19 stig, 8 fráköst og 4 stoðsendingar. Hjá Ítalíu var nautið Alessandro Gentile með 19 stig, 5 fráköst og 6 stoðsendingar.
Serbar ætla sér alla leið á þessu móti enda ósigraðir í sögulega sterkum riðli en til þessa eru Serbar, Frakkar og Grikkir einu ósigruðu liðin á mótinu.
Mynd/ Hörður D. Tulinius – Milos Teodosic átti magnaðar rispur í dag.



