spot_img
HomeNeðri deildir2. deild karlaSenur í Sandkassanum -Reynir fyrstir að leggja KR-b að velli í...

Senur í Sandkassanum -Reynir fyrstir að leggja KR-b að velli í ástríðudeildinni

Reynismenn unnu annan heimasigur sinn í röð í 2. deild karla þegar liðið lagði ósigrað lið KR-b í Sandkassanum í gærkvöldi. Lokatölur 82-72 í blóðheitum og spennandi leik þar sem 3 leikmenn voru sendir snemma í sturtu og hefðu þeir hæglega getað orðið fleiri.

Reynismenn byrjuðu leikinn talsvert betur og leiddu eftir fyrsta leikhluta í 23-16 þar sem Guðmundur Auðun Gunnarsson sá að mestu um stigaskor heimamanna sem spiluðu aggressíva vörn á gestina og reyndu að keyra upp hraðann. Það lagðist ekki vel í gestina sem voru seinir í gang en eins og góðum díselvélum sæmir þá hrukku þeir í gang fyrir rest og með skynsemina að vopni mjökuðu KR-ingar sér aftur inn í leikinn. Það vantar ekkert uppá reynsluna í liði KR-b þar sem Finnur Atli Magnússon, Skarphéðinn Ingason og Pálmi Freyr Sigurgeirsson voru að draga vagninn, þó ekkert alltof hratt. Sandgerðingum gekk illa að hrissta gestina af sér eftir að hafa náð muninum upp í 10 stig í tvígang. Alltaf komu KR-ingar til baka og nýttu sínar sóknir mun betur en heimamenn sem fóru hnýpnir inn í búningsklefa í hálfleik með hnífjafnan leik, 40-40.

Síðari hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri þar sem Reynismenn tóku áhlaup og reyndu að halda tempói leiksins háu. Heimamenn voru sjálfum sér verstir að hamra ekki járnið þegar það var sullandi heitt og KR-ingar með Finn Atla í góðum gír voru aldrei nema örfáum stigum á eftir. Þegar 4 mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta varð svo fjandinn laus þegar Kr-ingurinn Páll Sigurðsson ýtti við Kristjáni Smárasyni sem féll í gólfið með þeim afleiðingum að hér um bil allir á vellinum og mæður þeirra voru komnir í allsherjar stympingar sem dómurum leiksins gekk erfiðlega að ná tökum á. Guðmundur Magnússon tók svo lauflétta kyndingu fyrir framan varamannabekk Reynismanna sem hinn annars dagfarsprúði Jón Böðvarsson lét ekki bjóða sér og grýtti Guðmundi í gólfið með tilþrifum. Guðmundur rann þarna eina 3 metra eftir gólfinu, að blaðamanni sýndist, sem er óstaðfest héraðsmet þegar þessi frétt er skrifuð.
Í kjölfarið var þeim Guðmundi og Jóni báðum vísað af velli en Páll Sigurðsson fékk sér sæti á varamannabekk gestanna án þess að fá svo mikið sem aðvörun frá dómurum leiksins sem greinilega sáu ekki hvernig þessi fjöruga sena hófst.

Í byrjun fjórða leikhluta varð Jóhannesi Árnasyni svo á þau mistök að mótmæla dómi af fullmikilli hörku og uppskar tæknivillu fyrir vikið. Leikurinn hélt svo áfram í nokkrar sóknir áður en dómarar leiksins áttuðu sig á því að Jóhannes hafði fengið dæmda á sig óíþróttamannslega villu fyrr í leiknum. Var hann því vinsamlegast beðinn um að yfirgefa leikvöllinn sem Jóhannes virkaði ekkert allt of spenntur fyrir en hlýddi þó á endanum eftir nokkrar tilraunir til að virkja rétt sinn til áfrýjunar án árangurs enda engin fordæmi til staðar fyrir slíkum endurskoðunum.

6 eftirstandandi leikmenn KR-b gerðu hvað þeir gátu til að kreista fram sigur og háðu hetjulega baráttu fyrir því að vinna sig inn í leikinn eftir að Sandgerðingar höfðu tekið völdin á vellinum eftir þessar sviptingar. Liðið saknaði bæði Ólafs Ægissonar og Sveins Blöndal og munaði um minna gegn orkumiklu Reynisliði. Birgir Snorrason veitti Kr-ingum svo náðarhöggið þegar hann setti tvær þriggja stiga körfur með skömmu millibili og breytti muninum úr tveimur stigum í 8 stig þegar 2 og hálf mínúta voru eftir og ljóst að Kr-ingar ættu ekki orku í enn eitt áhlaupið. Lokatölur 82-72 og sætur heimasigur Reynismanna staðreynd.

Guðmundur Auðun Gunnarsson var stigahæstur heimamanna með 29 stig og honum næstur var Garðar Gíslason með 12 stig en Garðar gekk til liðs við Reynismenn að nýju í vikunni eftir að hafa verið á vergangi á milli Sandgerðis og Njarðvíkur síðustu tímabil og munar um minna í lágvöxnu liði Reynis. Þá átti Birgir Snorrason sinn besta leik í vetur og setti 14 stór stig á mikilvægum tímapunktum í leiknum.

Hjá KR-b var Finnur Atli Magnússon atkvæðamestur með 27 stig og Pálmi Freyr Sigurgeirsson átti einnig prýðisleik með 21 stig.

Reynismenn eru sem stendur í 5. sæti 2. deildar með 4 stig eða jafnmörg og KR-b sem eins og áður segir töpuðu sínum fyrsta leik í vetur eftir að hafa sigrað Leikni og Njarðvík-b.

Umfjöllun og mynd / Sigurður Friðrik Gunnarsson

Fréttir
- Auglýsing -