spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaSenda bandaríska leikmenn sína heim

Senda bandaríska leikmenn sína heim

Samkvæmt heimildum Körfunnar mun bandarískur leikmaður Grindavíkur Khalil Shabazz og sá bandarísk-ungverski DeAndre Kane flytjast búferlum á næstunni aftur heim til Grindavíkur.

Lið Grindavíkur í Bónus deildum karla- og kvenna hafa bæði æft og leikið á raunverulegum heimavelli sínum í HS Orku höllinni það sem af er tímabili og munu einhverjir fleiri leikmanna þeirra aftur vera á leiðinni til búsetu í bænum, en það mun vera í fyrsta skipti síðan rýma þurfti bæinn fyrir um tveimur árum, t.a.m. hefur hinn danski Daniel Mortensen búið þar það sem af er yfirstandandi tímabili.

Grindvíkingar hafa gert afar vel að nota körfubolta til sameingingar alveg síðan náttúruhamfarirnar dundu yfir þá fyrir tveimur árum, en sé litið til áhorfendafjölda á leikjum nú í vetur hefur hvað best mæting einmitt verið á leiki þeirra heima í Grindavík þar sem oft á tíðum hefur verið lygileg stemning miðað við fyrri hluta deildarkeppni.

Ekki skemmir heldur fyrir hvað liðum þeirra hefur gengið vel, en karlalið þeirra er taplaust í efsta sæti deildarinnar á meðan kvennaliðið deilir efsta sætinu með Njarðvík, með aðeins einn tapaðan leik í fyrstu sjö leikjum sínum í Bónus deildinni.

Líkt og sjá má í færslu frá formanni Grindavíkur Ingibergi Þór Jónassyni er félagið nú á höttunum eftir nokkrum hlutum fyrir híbýli þeirra og hvetur Karfan alla sem geta liðsinnt félaginu að gera það.

Fréttir
- Auglýsing -