Ísak Máni Wíum hefur samið við Sportklub Niederösterreich St. Pölten í Austurríki um að gerast yfirmaður akademíu félagsins og aðstoðarþjálfari úrvalsdeildarliðs félagsins. Tilkynnir félagið þetta á samfélagsmiðlum fyrr í dag.
Félagið er staðsett í borginni Sankt Pölten og var stofnað fyrir 70 árum. Síðan þá hafa þeir unnið sex landstitla og þrjá bikarmeistaratitla, síðast 1999, en allir titlar félagsins unnust á tíunda áratug síðustu aldar.
Þrátt fyrir ungan aldur er Ísak nokkuð reynslumikill þjálfari. Til ára hefur hann þjálfað yngri flokka ÍR og þá hefur hann einnig verið aðalþjálfari bæði meistaraflokks karla og kvenna hjá félaginu. Einnig hefur hann verið með yngri landsliðum Íslands, nú síðast undir 18 ára sem hefur leik á Evrópumóti innan fárra daga.
Ísak hafði þetta að segja þegar Karfan spurði hann út í þessa nýju stöðu ,,Þetta er spennandi tækifæri til að prófa nýja hluti og starfa í öðruvísi umhverfi en ég hef gert hingað til. Þeir buðu mér í heimsókn út og þrátt fyrir að deildin sé á svipuðum stað og íslenska hvað varðar gæði þá er umgjörðin í kringum liðin talsvert stærri og fleiri starfsmenn að vinna í fullu starfi sem er kúltúr sem mig hefur lengi langað að komast í”



