Tindastóll hefur samið við Oceane Konkou um að leika með liðinu á komandi leiktíð í Bónus deild kvenna. Staðfestir félagið þetta á samfélagsmiðlum fyrr í dag,
Oceane er 27 ára fransk-kanadískur bakvörður sem síðast lék fyrir Lakeside Lightning í Ástralíu, en á feril sínum hefur hún einnig leikið fyrir félög á Kýpur sem og í kanadíska háskólaboltanum.
Martin þjálfari Tindastóls segir í tilkynningu Oceane vera þekkta fyrir hraða, varnarleik og að vera góð þriggja stiga skytta, eiginleika sem munu styrkja liðið verulega fyrir komandi tímabil. „Hún er að spila í Ástralíu núna og stendur sig mjög vel, við hlökkum mikið til að fá hana til liðsins“
Oceance segist spennt að ganga til liðs við Tindastól. „Ein af aðalástæðunum fyrir því að ég valdi þetta félag er tækifærið til að spila undir stjórn evrópsks þjálfara sem einbeitir sér einnig að því að þróa mig sem leikmann. Umhverfið og aðstaðan hér mun gefa okkur allt sem við þurfum til að sækjast eftir árangri og ná markmiðum okkar saman. Ísland lítur fallega út, svo ég get ekki beðið eftir að heimsækja og hitta liðið!“



