Snæfell hefur samið við tvo efnilega leikmenn fyrir komandi átök í fyrstu deild karla.
Sturla Böðvarsson óx jafnt og þétt á síðasta tímabili með Snæfell og þá aðeins 16 ára gamall þá fékk hann stórt hlutverk hjá liðinu í úrslitakeppni fyrstu deildarinnar.
Gunnlaugur þjálfari var ánægður með að halda Sturlu: „Sturla er eitt mesta efni sem við höfum átt í áraraðir hérna í Snæfell og er það því mjög mikilvægt fyrir okkur að halda honum og leyfa honum að þróast sem leikmanninum sem hann getur orðið. Sturla sýndi það á síðasta tímabili að hann býr yfir mikilli greind inn á körfuboltavellinum og við erum tilbúin að leyfa honum að springa út. Ég er mjög ánægður að hann skuli vilja halda áfram með okkur og ég er staðráðinn í því að það er rétt skref fyrir hann. Hérna fær hann að gera mistök og spila mikilvægar mínútur. Ég vona að Sturla notfæri sér aðstöðuna sem er til staðar og leggji enn harðar að sér í vetur. Hann hefur alla burði til að vera risa partur af Snæfell á tímabilinu sem nálgast.“

Bjarki Steinar Gunnþórsson fæddur 2007 samdi einnig við Snæfell í dag. Bjarki er uppalinn í Stjörnunni og spilaði með Breiðablik á síðasta tímabili.
Gunnlaugur var beðinn um að gefa smá skýrslu um Bjarka og hans hlutverk á komandi tímabili: „Fyrst og fremst erum við ánægð með að leikmenn af höfuðborgarsvæðinu vilji koma í Snæfell til þess að þróa sinn leik, það eitt segir mér að við erum að gera eitthvað rétt. Bjarki er hörkuduglegur leikmaður sem setur mikinn metnað í að spila vörn. Þannig leikmenn viljum við hafa í okkar röðum. Bjarki getur einnig verið sóknarvopn og er hann góð þriggja stiga skytta. Ég hlakka til að vinna með honum og sjá hann þróast í vetur sem leikmann og persónu. Bjarki er mjög metnaðarfullur ungur drengur og það er virkilega gott fyrir okkur að fá þannig leikmenn inn í liðið, það ýtir vonandi við öðrum leikmönnum til að leggja enn meira á sig. Við viljum búa til umhverfi fyrir leikmennina okkar til að blómstra og vonandi nær Bjarki Steinar að gera það í vetur.“