Undir 16 ára drengjalið Íslands hafði betur gegn Noregi á Norðurlandamótinu í Kisakallio í Finnlandi, 54-78. Leikurinn var sá fyrsti sem liðið leikur á móti þessa árs, en það stendur til 6. júlí næstkomandi.
Fyrir leik
Þessi árgangur fór á opið Norðurlandamót á síðasta ári í Kisakallio. Þar sýndi liðið nokkrar ágætar frammistöður, en náði þó ekki í nema einn sigur í fjórum leikjum. Sigur þeirra þar kom gegn Þýskalandi, sem er ekki á mótinu í ár þar sem um hefðbundið Norðurlandamót er að ræða þetta árið.

Gangur leiks
Leikurinn er gífurlega jafn á upphafsmínútunum. Íslenska liðið opnar leikinn á 5-0 áhlaupi, en Noregur svara með 11-4 áhlaupi á móti. Á lokametrum fyrsta fjórðungs er leikurinn svo í járnum og munar aðeins einu stigi á liðunum fyrir annan leikhlutann, 13-12. Íslenska liðinu gengur erfiðlega að verjast þriggja stiga skotum Noregs í fyrsta og öðrum leikhluta leiksins og fá í upphafi annars fjórðungs þrjá í röð á sig. Norðmenn ná mest 11 stiga forystu áður en Ísland nær að koma einhverjum vörnum við, en íslenska liðið gerir ágætlega undir lok hálfleiksins að loka bilinu og eru sjálfir með tveggja stiga forskot þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 30-32.
Stigahæstir fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum voru Almar Jónsson með 11 stig og þá voru Benoní Andrason og Steinar Rafnarson með 7 stig hvor.
Liðin skiptast á snöggum áhlaupum í upphafi seinni hálfleiksins. Ísland lengst af skrefinu á undan í þriðja fjórðungnum, en undir lok hans nær Noregur mikið til að loka á Ísland sóknarlega á meðan þeir halda áfram að setja þrista og koma sér á línuna og er staðan jöfn fyrir lokaleikhlutann, 48-48.
Ísland er með ágætis tök á leiknum inn í fjórða leikhlutann og þegar fimm mínútur eru til leiksloka er munurinn 7 stig, 52-59. Þeir láta svo kné fylgja kviði, ná 17-1 áhlaupi og gera útum leikinn. Niðurstaðan að lokum öruggur sigur Íslands,

Kjarninn
Ísland átti skilið að vinna þennan leik. Þrátt fyrir að hafa skotið boltanum illa af vítalínunni og fyrir utan þriggja stiga línuna á löngum köflum leiksins. Norðmenn gerðu vel að spila á styrkleika sína og settu oft á tíðum ótrúlega erfið skot sem héldu þeim inni í leiknum. Íslenska liðið gerði að sama skapi vel að svara því og í raun leyfðu þeir þessu ekki að verða spennandi í lokin. Girtu gjörsamlega fyrir sóknarvopn Noregs í fjórða leikhlutanum.
Atkvæðamestir
Íslenska liðið sem heild var nokkuð gott í dag. Fáir veikir punktar. Ef einhver væri maður leiksins yrði það líklega Almar Jónsson, sem var gífurlega kraftmikill varnarlega, setti einnig 16 stig, tók 3 fráköst, gaf 3 stoðsendingar, stal 2 boltum og varði 2 skot. Þá var Daníel Snorrason einnig góður með 19 stig, 5 fráköst og 4 stolna bolta og Benoní Stefan Andrason skilaði 10 stigum, 8 fráköstum, 5 stoðsendingum og 5 stolnum boltum.
Hvað svo?
Næst eiga drengirnir leik á morgun miðvikudag 2. júlí kl. 16:30 gegn Svíþjóð.



