spot_img
HomeFréttirSeiglusigur bikarmeistara Hauka í HS Orku Höllinni

Seiglusigur bikarmeistara Hauka í HS Orku Höllinni

Haukar sóttu sigur í Grindavík í kvöld í flottum leik þar sem barist var af hörku og ekkert gefið eftir; lokatölur urðu 75-82.

Leikurinn var meira og minna í járnum allan tímann, en reyndir Haukar innbyrtu sigurinn á lokakaflanum.

Grindavíkurstelpur voru grimmar og ákveðnar; léku skynsamlega í vörn og sókn og létu gestina hafa verulega fyrir hlutunum strax frá upphafi leiks. 

Haukaliðið var þó ekkert á því að láta heimastelpur komast of langt í burtu frá sér, héldu sér vel inni í leiknum þótt flæði sóknarleiks liðsins hafi ekki verið upp á það besta.

Í stöðunni 51-48 í þriðja leikhluta fékk hin frábæra Dani Rodriquez aðra tæknivillu sína og þar með var hún fokin útaf – hafði leikið mjög vel.

Grindvíkingum var brugðið við þetta, en liðið lét þó ekki slá sig útaf laginu; leikmenn börðust einfaldlega enn meira og hélt liðið sér inn í leiknum þangað til um fimm mínútur lifðu leiks.

Þá tóku Haukar hressilega rispu og náðu muninum upp í tíu stig, og þrátt fyrir hetjulega baráttu Grindvíkinga var róðurinn einfaldlega of erfiður án Dani gegn svo góðu liði sem Haukar eru.

Hjá Grindavík var áðurnefnd Dani mjög góð – að venju liggur við að maður segi – meiriháttar íþróttakona. Hulda Björk Ólafsdóttir lék afar vel, en hún fékk það erfiða hlutskipti að reyna að hemja Kieiru Robinson. Hulda er hörkuleikmaður í vörn og sókn – ein af þeim efnilegri á landinu.

Amanda Okodugha átti góðan leik og hún getur látið finna vel fyrir sér inni í teig, getur einnig skotið vel að utan. Haekla Eik Nökkvadóttir, Thea Jónsdóttir og Alexandra Eva Sverrisdóttir áttu allar góða spretti í þessu efnilega Grindavíkurliði, sem lék einfaldlega vel í þessum leik þótt ekki næðist sigur að þessu sinni.

Hjá Haukum var Keira Robinson afar sterk – lék betur eftir því sem á leikinn leið. Elísabet Ýr Ægisdóttir var mjög góð inni í teig og hún getur líka skotið afar vel fyrir utan. Mjög góður leikmaður. Sólrún Inga Gísladóttir var sömuleiðis mjög góð. Haukaliðið er eitt það allra besta á landinu, en hefur glímt við ansi mikil meiðsli á leiktíðinni, og á því mjög líklega töluvert inni. Liðið sýndi karkater – missti aldrei haus þrátt fyrir góðan leik Grindvíkinga og slíkir sigrar gefa oft til kynna hversu sterk lið eru í raun þegar á hólminn er komið; Haukaliðið er eitt það alsterkasta á landinu.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -