spot_img
HomeFréttirSeiglan tryggði Spurs sigur

Seiglan tryggði Spurs sigur

13:09:44
Active ImageSan Antonio virðast vera komnir á beinu brautina eftir afleita byrjun, en þeir unnu nauman sigur á Sacramento Kings í nótt, 90-88. Það var án Tony Parker, sem ætti að snúa aftur fljótlega, og Manu Ginobili sem er enn að ná sér eftir aðgerð á ökkla sem hann fór í í sumar.

Hinn síungi Tim Duncan leiddi sína menn með 20 stig og 10 fráköst og annar ellismellur, Michael Finley bætti 21 stigi v ið , en það var Duncan sem gerði síðustu fjögur stig leiksins sem tryggði þeim sigur. Kings fengu færi á að komast yfir með flautuskoti Quincy Douby, en það geigaði.

Úrslit og frekari lýsingar á leikjum næturinnar fylgja hér að neðan:

Phoenix Suns unnu frækinn sigur á Detroit Pistons í nótt, 104-86, þrátt fyrir að tröllkarlinn Shaquille O´Neal hafi fengið reisupassann í 2. leikhluta. Rodney Stuckey keyrði upp að körfunni í átt að Shaq og endaði það feigðarflan eins og svo mörg önnur með því að Stuckey lá í gólfinu. Dómari leiksins taldi framgöngu Shaq verðskulda ásetningsvillu og tafarlausan brottrekstur. Shaq var ósammála og sagði að um náttúrulögmál væri að ræða, litli gaurinn hafi einfaldlega hlaupið á vegg.

Þegar þar var komið við sögu voru Suns þegar komnir með gott forskot sem þeir létu aldrei af hendi. Lykilmenn hjá Pistons, eins og Allen Iverson og Tayshaun Prince náðu sér alls ekki á strik og var Iverson með 9 stig, innan við 25% nýtingu og 5 tapaða bolta.

Hjá Suns var það Amare Stoudamire sem fór fremstur með 29 stig og 11 fráköst, Steve Nash var með 17 og Boris Diaw gerði 13 af bekknum.

Það er ansi langt síðan NY Knicks (6-3) og Dallas Mavericks (2-7) hafa mæst þar sem þeir fyrrnefndu voru með betri stöðu í deildinni, en Dallas hristu aldeilis af sér slyðruorðið eftir fimm tapleiki í röð og lögðu Knicks í framlengdum spennuleik í nótt, 124-114.

Lengi vel leit út fyrir að Dallas yrði að lúta í gras enn eitt skiptið, en Dirk Nowitzki, Jason Terry og Josh Howard sýndu af sér fádæma seiglu við að komast aftur inn í leikinn og í framlengingunni sá Nowitzki um jarðarförina þegar Dallas óðu yfir Knicks.

Nowitzki kláraði leikinn með 39 stig og 15 fráköst, Howard var með 31 og 14 og Terry gerði 20. Hjá Knicks var Zach Randolph með 27 stig og 18 fráköst.

Hér má sjá úrslit næturinnar:

Miami 96
Toronto 107

Orlando 90
Charlotte 85

Dallas 124
New York 114

Detroit 86
Phoenix 104

Minnesota 84
Denver 90

San Antonio 90
Sacramento 88

Tölfræði leikjanna

ÞJ

Fréttir
- Auglýsing -