Landsliðsmiðherji íslenska landsliðsins Tryggvi Snær Hlinason var gestur í síðustu upptöku af Aukasendingunni.
Upptakan var tekin á hóteli íslenska liðsins í höfuðborg Litháen, Vilníus, þar sem liðið var við æfingar fyrir lokamótið, en fyrsti leikur Íslands er komandi fimmtudag 28. ágúst gegn Ísrael.
Snert er á hinum ýmsu málefnum í upptökunni, upphafinu fyrir norðan, framfarir hans sem leikmanns, hvað hann væri að gera ef hann væri ekki í Körfu, mótið í Póllandi, andann í liðinu og margt fleira.
Tryggvi byrjaði seint að æfa körfubolta, en eftir að hann var byrjaður voru framfarir hans sjáanlegar á hverju einasta ári. Fór 19 ára til Valencia á Spáni 2017 og hefur síðan leikið fyrir fjögur félög í ACB deildinni á Spáni, sem almennt er talin besta landsdeild Evrópu.
Varðandi framfarir sínar sagði Tryggvi að mestar hafi þær verið fyrstu árin en bætir svo við ,,Ég tel mig alltaf bæta mig. Þó maður sé hættur að bæta sig upp á líkamlega getu, þá er maður alltaf að bæta sig í skilningi, leiklestri og öllu öðru sem er í körfubolta.”
Líkt og Tryggvi staðfestir í upptökunni hefur hann framlengt samning sinn við Bilbao, en þar hefur hann verið síðan 2023. Liðinu og honum hefur gengið ágætlega á Spáni síðan hann kom til þeirra, en á síðasta tímabili unnu þeir FIBA Europe Cup, fyrsta Evróputitill félagsins.
Hér fyrir neðan er hægt að hlusta á Aukasendinguna, en upptakan er einnig aðgengileg á öllum helstu veitum undir nafni Körfunnar



