Cleveland Cavaliers hafa ráðið Byron Scott til að stýra liði sínu næstu þrjú árin, en það hafa fjölmiðlar vestanhafs eftir heimildarmönnum sínum. Talið er líklegt að ráðningin verði staðfest síðar í dag.
Scott, sem var á árum áður einn af liðsmönnum gullaldarliðs LA Lakers "Showtime", hefur getið sér gott orð sem þjálfari þar sem hann hefur stýrt NJ Nets og New Orleans Hornets, þaðan sem hann var rekinn í vetur, þrátt fyrir að hafa verið valinn þjálfari ársins árið 2008.
Cavs létu Mike Brown fara í sumar eftir enn ein vonbrigðin í úrslitakeppni, en framtíð liðsins er í mikilli óvissu þar til LeBron James gerir upp hug sinn.
Scott sagðist hafa mikinn áhuga á starfinu hvort sem James yrði með eða ekki. Þó liðið myndi eflaust hrynja niður töfluna væri staðan hjá þeim skárri en þegar hann hóf störf hjá fyrri liðum.
Brian Shaw, aðstoðarþjálfari Lakers, var einnig orðaður við stöðuna hjá Cleveland, en var ekki tilbúinn til að festa sig á þessari stundu þar sem hann er að bíða eftir að Phil Jackson taki ákvörðun um hvort hann snúi aftur á næsta ári eða ekki.



