Undir 16 ára lið drengja laut í lægra haldi fyrir Eistlandi með minnsta mögulega mun, 1. stigi, 81-82. Liðið er því með tvo sigurleiki og tvo tapleiki, en síðasti leikur þeirra er gegn Finnlandi á morgun.
Ísland hóf leikinn betur. Voru komnir með 6 stiga forystu eftir aðeins 3 mínútur, en nokkuð ljóst var frá að frá fyrstu mínútu ætluðu Eistar að spila eins hart og þeir mögulega fengu leyfi til. Ísland náði þó að byggja aðeins á góðri byrjun sinni og voru þeir komnir með 10 stiga forystu á tímapunkti í hlutanum. Með duglegri pressuvörn í lokin náðu Eistar þó að saxa aðeins á það og þegar að leikhlutinn var á enda var Ísland með 5 stiga forystu, 25-20.
Eistland byrjaði annan leikhluta svo enn betur en þeir höfðu endað þann fyrsta og voru þeir komnir aðeins stigi frá Íslandi þegar um tvær mínútur voru liðnar. Nokkuð grófur leikur þeirra hafði hinsvegar kostað þá það að Ísland var komið í bónus. Ísland var svo duglegt að sækja að körfunni restina af hálfleiknum og uppskar heilan helling vítaskota í staðin. Þegar liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik var staðan 45-39 Ísland í vil.
Atkvæðamestur í fyrri hálfleik var Sigvaldi Eggertsson með 17 stig og 7 fráköst.
Í byrjun seinni hálfleiksins var leikurinn svo jafn og spennandi. Ísland hélt þó í nauma forystu. Eistland hélt áfram að spila frekar grófan leik. Í raun svo grófan að mesta mildi hlýtur að teljast að enginn hafi meitt sig alvarlega. Um miðjan leikhluta byggir Ísland sér svo upp mest 9 stiga forystu sem þeir missa svo aftur niður í 1 stig þegar að 3 mínútur eru eftir af hlutanum. Fyrir lokaleikhlutann var Ísland 3 stigum yfir, 64-61.
Í byrjun 4. leikhlutans var ljóst að Eistland var búið að fá þó nokkuð mikið af villum dæmt á sig í leiknum. Fjórir af fimm byrjunarliðsmönnum þeirra voru komnir með 4 villur þegar aðeins tvær mínútur voru liðnar af hlutanum. Þegar að hlutinn var hálfnaður var Ísland með 3 stiga forystu, 73-70.
Þegar 3 mínútur eru eftir kemst Eistland í fyrsta skipti yfir í leiknum, 75-76. Hilmar Pétursson þrumaði þá yfir völlinn með hraði og kom Íslandi aftur yfir, 77-76. Leikurinn var svo jafn þangað til í lokin. Þegar rúmar 20 sekúndur eru eftir kemst Eistland yfir aftur, 79-80. Þá kom annar Hilmar (Smári Henningsson) Íslandi til bjarga og setur Ísland aftur yfir, 81-80. Þá voru 12.7 sekúndur eftir fyrir lokasókn Eistlands. Í henni nær Eistland þrem skotum og jafnmörgum fráköstum áður en að boltanum er blakað ofaní á sama tíma og leikurinn endar (sjá myndband).
Fór svo að leikurinn endaði með 1. stigs sigri Eistlands, 81-82.
Maður leiksins var Sigvaldi Eggertsson, en hann skoraði 26 stig og tók 11 fráköst á þeim rúmu 38 mínútum sem hann spilaði.
Viðtöl: