15:51
{mosimage}
(Sara í leik með Snæfell gegn Grindavík)
Nýliðar Snæfells eru komnir í sumarfrí þar sem þær höfnuðu í 3. sæti í B-riðli Iceland Express deildar kvenna en þeim tókst það sem mörgum nýliðum hefur reynst þungbært, að tryggja sæti sitt í efstu deild. Karfan.is fékk Söru Sædal Andrésdóttur, leikmann Snæfells, til að rýna í viðureign Vals og Hamars í kvöld en Sara á von á því að eftir kvöldið geti Valskonur farið að huga að sumrinu.
Sjáum hvað Sara hafði um leikinn að segja:
Mjög sterkt hjá Hamarsstelpum að vinna síðasta leik sem kom þeim í töluvert þægilega stöðu. Hamar byrjaði tímabilið gríðarlega vel, spurning á hverju þær voru á undirbúningstímabilinu. Þær eru með góðan hóp og voru heppnar í útlendingalottóinu þetta tímabilið. Þær eru að koma aftur til eftir smá lægð á lokasprettinum og hafa unnið góða sigra, sbr. sigurinn á móti Haukum um daginn.
Valsstelpur með Signýju í fararbroddi hafa spilað ágætlega. Þær eru nýbúnar að fá til sín kana sem virðist geta litið ágætlega út. Við leyfðum henni allavega að líta vel út á móti okkur en það var nú aðallega vegna þess að stelpugreyið kom til landsins nokkrum tímum fyrir leik og við vildum að hún fengi að spila aðeins meira en einn leik á Íslandi.
Valur spilar á heimavelli í kvöld en ég tel að það skipti ekki miklu fyrir Hamar. Hamar á mjög líklega fleiri aðdáendur heldur en Valur og það er nú bara handboltanum að kenna. Því gæti ég vel trúað því að það verða mun fleiri sem munu sitja Hamarsmeginn í stúkunni í kvöld og ekki á það eftir að skemma fyrir Hamarsstelpum.
Bæði lið ætla sér klárlega sigur og getur þetta dottið báðum megin þar sem annað liðið er ekkert með gígantíska yfirburði fram yfir hitt. Þetta er ekkert Kr- Stjarnan dæmi. Valsstelpur þurfa fyrst og fremst að stoppa Juliu Dermirer og hennar fráköst. Þær þurfa að passa að Barkus fari ekki í ruglið og í leiðinni gæta vel að hinar stelpurnar, Fanney, Jóhanna og fleiri detti ekki í gírinn. Hamarsstelpur þurfa að hafa allar áhyggjur af Signý. Þó svo að Melissa Mitidiero og allar hinar í Valsliðinu spili vel í kvöld þá skiptir Signý bara öllu máli fyrir liðið.
Stemmningin og græðgin í Hamarsliðinu með hjálp aðdáandanna skilar þeim sigri í kvöld.
Mynd: Eyþór Benediktsson



