spot_img
HomeLandsliðinEuroBasket 2023Sara Rún stórkostleg er Ísland náði í fyrsta sigur undankeppninnar

Sara Rún stórkostleg er Ísland náði í fyrsta sigur undankeppninnar

Ísland lagði Rúmeníu í kvöld í fjórða leik sínum í undankeppni EuroBasket 2023, 68-58. Eftir leikinn eru liðin jöfn að stigum í 3.-4 sæti riðilsins, en Ísland er þar skör ofar vegna innbyrðisstigatölu.

Fyrir leik

Liðin mættust ytra í fyrsta leik undankeppninnar þann 11. nóvember á síðasta ári. Þar hafði Rúmenía sigur í spennandi leik, 65-59. Þar var Sara Rún Hinriksdóttir atkvæðamest fyrir Ísland með 17 stig og 11 fráköst. Fyrir Rúmeníu var Nicolett Orban atkvæðamest í þeim leik með 19 stig og 18 fráköst, en hún var frá vegna meiðsla í leik dagsins.

Gangur leiks

Íslenska liðið virtist hafa ágætis tök á leiknum í fyrsta leikhlutanum. Halda nokkurra stiga forystu bróðurpart fjórðungsins, en missa hana svo niður undir lokin. Staðan jöfn eftir þann fyrsta 15-15. Báðum liðum gekk illa að setja stig á töfluna í upphafi annars fjórðungs. Eftir um tveggja mínútna leik setur Rúmenia þó niður þrist (af spjaldinu), ná svo enn að bæta við á næstu mínútum og er Ísland enn án stiga, 15-20, þegar leikhlutinn er tæplega hálfnaður. Með nokkrum mikilvægum körfum frá Söru Rún og Isabellu Ósk nær Ísland að halda leiknum nokkuð jöfnum til loka hálfleiksins, en munurinn þó 5 stig þegar liðin halda til búningsherbergja, 27-32.

Atkvæðamest fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum var Hildur Björg Kjartansdóttir með 5 stig og 5 fráköst, en hún þurfti að setjast á bekkinn með þrjár villur þegar annar hlutinn var rúmlega hálfnaður. Stigahæst fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum var hinsvegar Sara Rún með 12 stig.

Íslenska liðið byrjar fyrstu tvær mínútur seinni hálfleiksins á 7-0 áhlaupi, 34-32. Missa þá Hildi Björg aftur á bekkinn eftir að hún fær sína fjórðu villu. Leikurinn er svo í nokkru jafnvægi fram til loka þriðja fjórðungs, en staðan fyrir lokaleikhlutann er 46-50 Rúmeníu í vil.

Nokkuð var farið að bera á villuvandræðum hjá íslenska liðinu fyrir fjórða leikhlutann. Eins og tekið var fram var Hildur Björg komin með fjórar villur og þá var Þóra Kristín Jónsdóttir einnig með fjórar villur og bæði Sara Rún og Isabella Ósk með þrjár.

Sóknarlega mætti íslenska liðið betur til leiks í fjórða leikhlutanum heldur en þær höfðu gert þrjá leikhlutana á undan. Eru snöggar að vinna niður forskot Rúmeníu og komast loks yfir um miðbygg fjórðungsins. Þetta var að miklu leyti einstaklinsframtaki Söru Rúnar að þakka, en leikurinn er þó í járnum allt fram í brakið, staðan 58-58 þegar rúmar 3 mínútur voru til leiksloka. Á næstu einni og hálfri mínútu nær Ísland 8-0 áhlaupi og setur sig í góða stöðu fyrir síðustu 90 sekúndur venjulegs leiktíma, 66-58. Eftirleikurinn virtist auðveldur fyrir íslenska liðið, sem að lokum sigldi heim nokkuð öruggum sigri, 68-58.

Atkvæðamestar

Sara Rún Hinriksdóttir var ekkert minna en stórkostleg fyrir Ísland í dag, skilaði 33 stigum, 7 fráköstum og 5 stoðsendingum. Henni næst var Hildur Björg Kjartansdóttir með 9 stig og 7 fráköst.

Hvað svo?

Síðustu tveir leikir Íslands í undankeppninni eru í febrúar á næsta ári. Þann 9. febrúa leikur liðið gegn Ungverjalandi ytra áður en þær taka á móti Spáni heima þann 12. febrúar.

Tölfræði leiks

Myndasafn (SBS)

Myndasafn (Hafsteinn Snær)

Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil

Fréttir
- Auglýsing -